4 látnir og 19 saknað eftir eldsvoða

Þykkur, svartur reykur umlék hótelið. Vitað er til þess að …
Þykkur, svartur reykur umlék hótelið. Vitað er til þess að fjórir hafi farist í eldinum og ekki er vitað um afdrif 19 til viðbótar. AFP

Fjórir létust og óttast er um líf 19 til viðbótar eftir að eldur kom upp á stóru hóteli í Manila, höfuðborg Filippseyja, í dag. Voru þyrlur m.a. notaðar til að bjarga fólki af þaki Waterfront Manila Pavilion-hótelsins, sem einnig hýsir spilavíti.

Eldurinn logaði enn glatt sex klukkutímum eftir að hans varð fyrst vart og hafa rúmlega 300 manns flúið af svæðinu. 19 manns er enn saknað og er óttast að þeir séu enn innilokaðir á hótelinu.

Auk þeirra fjögurra sem létust voru sex fluttir á sjúkrahús að sögn slökkviliðsins á staðnum.

Verið er að rannsaka upptök eldsins, en talið er að þau sé að finna í spilavítinu eða á 21. hæð hótelsins.

„Þetta er verulega umfangsmikill eldur,“ sagði lögreglumaðurinn Marlon Banaag í samtali við AFP. Banvænir eldsvoðar verða reglulega í fátækari byggðum Filippseyja þar sem öryggisreglur eru virtar að vettugi.

Mannskæðasti eldsvoðinn, sem orðið hefur á Filippseyjum hin síðari ár, var árið 2015 þegar 72 fórust í eldsvoða í skóverksmiðju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert