Allsherjartiltekt á Everest

Ferðamenn og fjallgöngumenn sem klífa Mount Everest eru ekki nógu …
Ferðamenn og fjallgöngumenn sem klífa Mount Everest eru ekki nógu duglegir að tína upp ruslið eftir sig. AFP

Tiltekt er hafin á Everest, hæsta fjalli heims, og er markmiðið að fjarlægja 100 tonn af rusli sem ferðamenn og fjallgöngumenn skilja eftir sig. Yfir 40.000 manns heimsækja fjallið árlega og skilja eftir sig rusl sem stefnir lífríki og umhverfi fjallsins í hættu ef ekki er brugðist við með viðeigandi hætti. 

Á fyrsta degi tiltektarinnar, sem hófst í gær, tókst að safna um 1.200 kílóum af rusli og var því flogið frá Lukla-flugvellinum til Kathmandu þar sem það verður endurunnið. Tiltekt eins og þessi fer fram árlega og í ár er áhersla lögð á að safna saman rusli sem hægt er að endurvinna í höfuðborginni.

Fjallgöngumönnum ber að taka með sér allt rusl sem þeir skilja eftir sig á fjallinu. Á hverju ári kemur það samt sem áður í hlut leiðsögumanna að safna saman hundruðum kílóa af rusli.

Algengasta ruslið sem fólk skilur eftir sig eru tómar bjórflöskur og bjórdósir, tómar umbúðir af dósamat og ýmis fjallgöngubúnaður, til dæmis tómir súrefniskútar.

1,2 tonn af rusli voru flutt frá Lukla-flugvellinum sem er …
1,2 tonn af rusli voru flutt frá Lukla-flugvellinum sem er við rætur Everest til Kathmandu þar sem það verður endurunnið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert