Ásakanir um kosningasvik farnar að berast

Kjósendur greiða atkvæði í sendiráði Rússlands í Berlín í morgun.
Kjósendur greiða atkvæði í sendiráði Rússlands í Berlín í morgun. AFP

Aðgerðasinnar úr röðum rússneskra stjórnarandstæðinga hafa þegar tilkynnt um meint kosningasvik í forsetakosningunum sem fram fara í landinu í dag. Segja þeir dæmi um að fólk hafi kosið oftar en einu sinni og að útfylltir kjörseðlar hafi verið komnir í kjörkassana í Jazjno-Sacahlinsk áður en fyrstu kjósendur komu á kjörstað.

Búist er við að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fari með sigur af hólmi í kosningunum og sitji þar með fjórða kjörtímabilið á forsetastóli.

Golos, óháð samtök sem fylgjast með framkvæmd kosninganna, hafa þegar birt á vef sínum lista yfir 1.764 atvik sem flokkast sem kosningasvik. Meðal þeirra atriða sem finna má á listanum eru staðhæfingar um að komið hafi verið í veg fyrir að kosningaeftirlitsmenn sinntu starfi sínu.

Alexei Navalny, einn helsti andstæðingur Pútíns, fær ekki að bjóða sig fram vegna skilorðsbundins dóms. Hreyfing á hans vegum hefur hins vegar sent 33.000 sjálfboðaliða á kjörstaði víðs vegar um Rússland til að fylgjast með framkvæmd kosninganna.

Á vef Navalny er þegar að finna lista yfir hundruð mögulegra brota í Moskvu og sveitunum í kringum höfuðborgina, sem og í Sankti Pétursborg og Bashkortostan í Úralfjöllum. 

Stuðningur við Pútín er minni á þessum stöðum en annars staðar í Rússlandi samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum.

Lögfræðingur hreyfingarinnar sagði á fréttamannafundi nú í morgun að sjálfboðaliðarnir hefðu ekki fengið að fara inn á alla kjörstaði og þá birti Navalny sjálfur á Twitter myndband sem sýndi kjörkassa sem búið var að setja kjörseðla í áður en atkvæðagreiðsla hófst.

Er kjörstjórnin sögð vera með það mál til rannsóknar, en myndbandseftirlit er á 80% allra kjörstaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert