McCabe afhenti glósur af fundum með Trump

Minnisblöðin sem Andrew McCabe afhenti þingnefndinni af fundum sínum með …
Minnisblöðin sem Andrew McCabe afhenti þingnefndinni af fundum sínum með forsetanum, þykja styðja þær fullyrðingar að Trump hafi reynt að hindra rannsóknina. AFP

Andrew McCabe, sem var á föstudag rekinn sem aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, hefur afhent þingnefnd sem rannsaka meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum minnisblöð af fundum sínum með Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Bandarískir fjölmiðlar segja minnisblöðin styðja ásakanir um að forsetinn hafi reynt að hindra rannsókn málsins að því er BBC greinir frá.

Trump rak McCabe úr starfi sínu hjá FBI á föstudag í kjölfar innri rannsóknar og hefur sakað hann um hlutdrægni. Trump hefur líka sagt Rússarannsóknina, sem sérstakur saksóknari Robert Mueller fer fyrir,  vera lítið annað en „nornaveiðar“. Mueller hefur til þessa stefnt 19 manns vegna málsins.

Þá sendi lögfræðingur forsetans, John Dowd, frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem hann sagði það vera tímabært að rannsókn sérstaks saksóknara ljúki.

McCabe hafði verið til rannsóknar hjá FBI frá því í janúar og var því í leyfi frá störfum. Hann var rekinn tveimur dögum fyrir 50 ára afmæli sitt, sem er í dag, en búist var við að hann segði þá af sér og færi á eftirlaun.

Dómsmálaráðherrann, Jeff Sessions, segir rannsóknina hafa verið ítarlega og sanngjarna og að niðurstaða hennar hafa verið að McCabe hafi skort heiðarleika, m.a. í málum sem hann tjáði sig um undir eiði og að hann hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar án þess að hafa til þess heimild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert