Meng­un, morð og leyni­leg affalls­rör

Álframleiðsla. Mynd úr safni. Norsk Hydro, sem er í meirihlutaeigu …
Álframleiðsla. Mynd úr safni. Norsk Hydro, sem er í meirihlutaeigu norska ríkisins, á Hydro Alunorte súrálhreinsistöðina og Albras álverksmiðjuna í Brasilíu. AFP

Árum saman hafa íbúar í nágrenni Barcarena iðnaðarsvæðisins í Pará í Brasilíu kvartað yfir því að álver í eigu Norsk Hydro og aðrar verksmiðjur á svæðinu séu að menga neysluvatn þeirra og valda íbúum niðurgangi og uppköstum, auk þess að eitra fyrir fiskinum í ánni og spilla matvælaframleiðslu á svæðinu.

Í nóvember á síðasta ári lögðu þeir fram kæru gegn Pará fylki, Hydro Alunorte hreinsistöð fyrir súrál og Albras álverksmiðjunni fyrir umhverfisspjöll. Norska fyrirtækið Norsk Hydro, sem norska ríkið á meirihluta í, á 92% hlut í Hydro Alunorte og 51% hlut í Albras.

Skipuleggjendum mótmælanna tóku í kjölfarið að berast hótanir. Svo hófst regntímabilið í febrúar og rauðleitt vatn og leðja flæddi yfir svæðið. Síðan var framið morð.

Paulo Nascimento, einn leiðtoga mótmælahópsins Cainquiama, var skotinn til bana sl. mánudag. Ítarlega er fjallað um málið á vef Guardian, sem hefur eftir Ismael Moraes, lögfræðingi hópsins að þeir telji dauða hans tengjast baráttunni gegn verksmiðjunum.

Halvor Molland, yfirmaður upplýsingasviðs Norsk Hydro segir lát Nascimentos vera „hörmulegt morð“, en mál fyrir lögregluna.

„Hydro er algjörlega mótfallið öllum slíkum aðgerðum og hafnar alfarið öllum tengslum milli sinnar framleiðslu og aðgerða gegn íbúum og samfélögum í Barcarena,“ sagði Molland.

Guardian segir lögreglu á svæðinu ekki hafa nein áform uppi um að yfirheyra starfsfólk verksmiðjanna að svo stöddu.

Fundu vísbendingar um leka frá súrálhreinsistöð

Nascimento var myrtur aðeins nokkrum vikum eftir að rannsakendur á vegum brasilískra stjórnvalda greindu frá því að þeir hefðu fundið vísbendingar um leka frá súrálhreinsistöð suðvestur af Belém, höfuðborg Pará.

„Okkur hafa borist hótanir allt frá því að við fordæmdum fyrirtækið,“ segir Bosco Martins Júnior, forsvarsmaður Cainquiama. „Við verðum að leggja traust okkur í Guð og fela okkur.“

Hydro Alunorte súrálhreinsistöðin á Barcarena iðnaðarsvæðinu í Pará í Brasilíu.
Hydro Alunorte súrálhreinsistöðin á Barcarena iðnaðarsvæðinu í Pará í Brasilíu. Ljósmynd/Vefur Norsk Hydro

Eftir að Martins Júnior greindi í janúar frá hótununum, fór saksóknari fram á að hópurinn fengi vernd. Ráðherrann sem fer með öryggismál í fylkinu sagði slíka ákvörðun hins vegar verða að vera tekna af fylkisráði sem hafi umsjón með vernd mannréttindasinna.

Norsk Hydro lýsir Alunorte verksmiðjunni sem stærstu hreinsistöð fyrir súrál í heiminum. Norska ríkið á 34% í Norsk Hydro og er stærsti eigandi fyrirtækisins. Norsk stjórnvöld hafa líka veitt styrki til umhverfisverndar í Brasilíu og fordæmdu í fyrra Michel Temer Brasilíuforseta fyrir aukna eyðingu skóglendis og tilraunir hans til að draga úr náttúruvernd.

Fiskum fækkað og íbúar með heilsufarsvanda

Nilson Cardoso, forstjóri samtaka fyrirtækja í nágreninu segir að svæðið hafa orðið illa fyrir barðinu á mengun árum saman.

„Fiskum hefur fækkað og ávextirnir eru ekki eins og þeir voru áður,“ segir hann. Íbúar á svæðinu hafa að hans sögn einnig átt við heilsufarsvandamál að stríða, m.a. niðurgang, uppköst, hárlos og kláða.

Þegar úrhellisrigning var á svæðinu dagana 16.-18. febrúar sl. tilkynntu íbúar í nágrenni affallstjarna verksmiðjunnar um flóð af rauðlitu vatni og leðju.

„Það tók að flæða inn á heimili fólks í nágrenni tjarnarinnar. Árnar fengu á sig þennan rauða lit og dauðir fiskar tóku að birtast,“ segir Cardoso.

Norsk Hydro hafnar því að það beri ábyrgð á flóðunum og segir ýmislegt hafa getað valdið langtímamengun á svæðinu. Það hefur þó viðurkennt að hafa óleyfi losað sig við regnvatn sem kunni að hafa verið blandað báxít ryki og ögnum af vítissóda.

Fundu affallsrör sem átti ekki að vera til

Embættismenn Brasilíustjórnar flugu yfir flóðasvæðið þann 17. febrúar og mynduðu það svæði þar sem rauðleita vatnið var að sögn saksóknarans Laércio de Abreu. „Þarna voru umhverfisskemmdir,“ segir hann.

Daginn eftir hélt teymi frá Evandro Chagas, rannsóknarstofnun í Belém sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið, á svæðið og fann þar rauðleitt vatn innan og utan landsvæðis verksmiðjunnar. Segja forsvarsmenn þess mengun hafa verið mikla og að fundist hafi affallsrör sem ekki eigi að vera til.

Ál er nýtt í ýmiskonar framleiðslu. Mynd úr safni.
Ál er nýtt í ýmiskonar framleiðslu. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

„Þetta leynilega rör losaði frárennsli frá fyrirtækinu út í umhverfið,“ segir Marcelo Lima, einn rannsakendanna sem fór fyrir teyminu.

Í á í nágrannasveitarfélaginu Bom Futuro mældist álmagnið 22 mg á lítrann, sem er vel yfir leyfilegum mörkum. Brasísk yfirvöld heimila 0,1 mg af áli á hvern lítra. Í nágrenni leynilega affallsrörsins mældist álmagnið hins vegar 6.000 mg á lítrann. Þá mældist þar einnig nítrat, súlfat, klóríð og blý í miklu magni.

„Þetta er Amazon – það er mjög erfitt að sætta sig við þessa mengun í ám okkar,“ segir Lima.

Dómstólar skipuðu fyrirtækinu að draga úr framleiðslu um 50% og að hætta að nota affallstjarnirnar, sem þeir höfðu eingöngu leyfi til að nota við prófanir.

Engin umhverfisáhrif samkvæmt Norsk Hydro 

Eivind Kallevik, fjármálastjóri Norsk Hydro og yfirmaður starfsemi fyrirtækisins í Brasilíu, neitar því hins vegar alfarið að fyrirtækið beri ábyrgð á einhverjum flóðum eða leka.

„Við fundum engin merki um að neitt hafi flætt yfir af affallsvæðunum,“ sagði hann. „Það var hins vegar verulega mikil rigning, sem leiddi til virkilega erfiðra aðstæðna fyrir íbúa á svæðinu,“ sagði Kallevik.

Molland segir einhver flóð hafa orðið inni í fyrirtækinu vegna bilunar í dælu, en að öllu því vatni hafi verið beint að hreinsistöð. Mælingar Hydro á svæðinu hafi ekki sýnt fram á nein umhverfisáhrif.

Þá segir Kallevik Norsk Hydro nú vera að dreifa neysluvatni til íbúa á svæðinu og að tvenns konar rannsóknir séu nú í gangi hjá fyrirtækinu.

Neysluvatnið óhæft til drykkjar

Teymi Marcelo Lima hefur hins vegar eftir þetta fundið aðra leið sem óunnið frárennsli frá fyrirtækjunum nær að renna  út í nærliggjandi ár. Guardian segir Norsk Hydro hafa viðurkennt að það hafi í leyfisleysi sent regnvatn, sem hlotið hafði sýrustigsmeðhöndlun, frá sér þessa leið bæði þann 17. febrúar og líka við og við dagana 20.-25. febrúar.

„Regnvatn frá hreinsunarstöðinni kann að innihalda báxít ryk og agnir af vítissóta, en vatnið komst ekki í snertingu við báxít leifar á svæðinu,“ sagði í yfirlýsingu Norsk Hydro.

Þegar upp komst um leka hjá fyrirtækinu árið 2009, fann  Simone Pereira, efnafræðiprófessor við a fylkisháskólann í Pará, þar kadmíum og ál í miklu magni.

Árið 2014 vann hún síðan rannsókn á því vatni sem fannst í jörðu í nágrenni Barcarena, en flestir íbúar á svæðinu fá neysluvatn sitt úr brunnum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að það væri óhæft til drykkjar þar sem að ál, fosfór og blý í vatninu væri yfir leyfilegum mörkum.

„Allt er þetta gert í nafni framþróunar, í nafni uppbyggingar,“ segir Pereira. „En er verðið sem að við greiðum fyrir of hátt?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert