Facebook lokar síðu uppljóstrarans

Facebook lokaði reikningi uppljóstrarans Christopher Wylie, sem segist ekki vilja …
Facebook lokaði reikningi uppljóstrarans Christopher Wylie, sem segist ekki vilja hjálpa fyrirtækinu við rannsókn sína nema síðan verði opnuð aftur. AFP

Facebook hefur lokað Facebook-síðu Christopher Wylie, eins stofnanda Cambridge Analytica fyrirtækisins, að því er CNN greinir frá. Wylie var jafnframt sá sem greindi frá því að Cambridge Analytica hefði misnotað persónuupplýsingar sem það komst yfir í gegnum Facebook.

„Úthýst af Facebook. Fyrir að segja frá, nokkru sem þeir hafa sjálfir vitað í tvö ár,“ sagði Wylie á Twitter í gær.

Fjölmiðlar greindu um helgina frá því að Cambridge Ana­lytica hafi nýtt per­sónu­upp­lýs­ing­ar 50 milljón Face­book not­enda til að útbúa umfangsmikinn gagnagrunn um bandaríska kjósendur án vitneskju Facebook. Gagnagrunnurinn var síðan notaður til að reyna að fá ókveðna kjós­end­ur til að kjósa Don­ald Trump í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um haustið 2016.

Komumst „inn í hug og hjörtu Bandaríkjamanna“

Facebook úthýsti Cambridge Analytica af samfélagsmiðlinum eftir að frétt­ir bár­ust af mál­inu. Í yf­ir­lýs­ingu frá Face­book seg­ir að fyr­ir­tækið hafi „fengið frétt­ir af að, and­stætt þeim vott­un­um sem það hafi fengið, þá hafi ekki öll­um gögn­um verið eytt“. Þá sagði talsmaður Face­book einnig að þau gögn hafi ekki verið fengið með tölvuþjófnaði.

Lokun síðu Wylie er nýjasta útspilið í málinu. Hann starfaði sem gagnasérfræðingur hjá Cambridge Analytica og greindi dagblöðunum New York Times og Observer frá starfsemi fyrirtækisins, sem og rannsakendum netglæpa í Bretlandi.

Að komast yfir upplýsingarnar „gerði okkur kleift að komast inn í hug og hjarta Bandaríkjamanna á hátt sem að aldrei hefur verið gert áður,“ sagði Wylie við bresku Channel 4 sjónvarpsstöðina.

Facebook segir Wylie hafa neita samstarfi um rannsókn málsins fyrr en að Facebook-síða hans verði opnuð aftur. „Í ljósi þess að hann notaði Facebook til að notfæra sér prófíla milljóna manna, þá er það nokkuð sem við getum ekki gert á þessum tímapunkti,“ sagði í yfirlýsingu frá Paul Grewal lögfræðingi Facebook. Fyrirtækið muni því halda áfram rannsókn sinni á málinu án aðstoðar Wylie.

Cambridge Ana­lytica fullyrðir að þegar fyr­ir­tækið hafi kom­ist að því hvernig upp­lýs­ing­ar, sem það fékk frá Al­ex­andr Kog­an, pró­fess­or við Cambridge há­skóla, voru fengn­ar, þá hafi það eytt öll­um skjöl­um þeim tengd­um og að það hafi verið gert strax í des­em­ber 2015.

Eng­ar þeirra upp­lýs­inga hafi verið nýtt­ar í kosn­inga­her­ferð Trumps og að fyr­ir­tækið hafi hvorki nýtt sér né geymt Face­book prófíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert