Fimm létust í hótelbrunanum

Mjög þykkan reyk lagði frá byggingunni.
Mjög þykkan reyk lagði frá byggingunni. AFP

Fimm létust í miklum eldsvoða í hóteli og spilavíti í Manila, höfuðborg Filippseyja, í gær. Slökkviliðsmenn börðust við eldinn í sólarhring. 

Reykurinn var gríðarlegur og á meðan eldurinn logaði sást vart í hið 22 hæða Waterfront Manila Pavilion-hótel. Eldurinn kviknaði í gærmorgun. 

Allir þeir sem létust voru starfsmenn spilavítisins, að því er yfirvöld segja. Um 20 slösuðust og eru nokkrir enn í lífshættu. 

Um 300 gestir og starfsmenn komust óskaddaðir frá eldsvoðanum. „Við vonum að enginn hafi orðið eftir inni í herbergjunum. Slökkviliðsmennirnir okkar hafa ekki enn farið upp allar hæðirnar,“ sagði slökkviliðsstjórinn Jojo Garcia á blaðamannafundi í morgun.

Slökkviliðsmennirnir fengu margir reykeitrun við störf sín. Þeir segja að eldurinn hafi verið ólýsanlegur að umfangi. Þeir hafi ekkert séð fyrir reyk og það hafi verið mjög erfitt að athafna sig inni í byggingunni.

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert