Pútín fékk 76,67% atkvæða

Vladimír Pútín sigraði með yfirburðum í forsetakosningunum sem fram fóru í Rússlandi í gær. Nú þegar 99,8% atkvæða hafa verið talin fékk hann að sögn kjörnefndar 76,67% atkvæða.

Pútín hefur haldið um valdataumana í Rússlandi, annað hvort sem forsætisráðherra eða forseti, í hartnær tvo áratugi. Hann hefur aldrei fyrr hlotið viðlíka stuðning til forsetaembættisins. Frambjóðandinn sem komst næst honum var Palvel Grudinin sem fékk um 12% atkvæða. 

Helsta stjórnarandstæðingi Rússlands, Alexei Navalní, var bannað að taka þátt í kosningunum. Hann hafði hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir fjármálamisferli. Navalní segir dóminn eiga sér pólitískar rætur.

Aldrei var því talinn nokkur vafi á því að Pútín færi með sigur af hólmi en úrslitin eru honum hagstæðari en kannanir höfðu sýnt. 

Pútín sló á létta strengi með fréttamönnum í gærkvöldi. Þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að bjóða sig fram enn einu sinni að sex árum liðnum hló hann og sagði: „Það sem þú ert að spyrja um er svolítið fyndið. Heldur þú að ég ætli að vera hér þar til ég verð hundrað ára? Nei!“

Í kosningunum árið 2012 hlaut Pútín 64% atkvæða.

Mikið var fjallað um meint kosningasvindl í gær. Á myndböndum sem dreift var á netinu mátti t.d. sjá fólk standa við kosningavélarnar og setja í þær mörg atkvæði. Ella Pamfilova, sem fer fyrir kjörnefndinni, segir að engin alvarleg brot hafi átt sér stað. 

Vladimír Pútín hittir stuðningsmenn sína á kosningafundi í gærkvöldi.
Vladimír Pútín hittir stuðningsmenn sína á kosningafundi í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert