Pyntingar og dráp í skjóli neyðarlaga

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur ítrekað framlengt gildistíma neyðarlaganna.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur ítrekað framlengt gildistíma neyðarlaganna. AFP

Neyðarlög þau sem verið hafa í gildi í Tyrklandi um langan tíma hafa orðið til þess að alvarleg mannréttindabrot eru framin á hundruðum þúsunda manna. Fólk er drepið, pyntað og fangelsað án dóms og laga. Þetta segir í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag. Tyrknesk stjórnvöld segja skýrsluna „hlutdræga“ og „óásættanlega“.

Neyðarástandi var lýst yfir í Tyrklandi eftir tilraun til valdaráns þar í landi í júlí árið 2016. Það hefur ítrekað verið framlengt síðan. Það hefur haft gríðarlegar afleiðingar að því er mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir í skýrslunni sinni. 

Í skýrslunni er farið yfir stöðu mála í Tyrklandi á síðasta ári. Segir að í kjölfar hins valdaránstilraunarinnar hafi stjórnvöld tekið sér mikið vald og þar með skert verulega mannréttindi þjóðarinnar. 

Sýrlenskir Kúrdar mótmæla innrás Tyrkja í Afrin-hérað.
Sýrlenskir Kúrdar mótmæla innrás Tyrkja í Afrin-hérað. AFP

„Ítrekuð framlenging á neyðarástandinu í Tyrklandi hefur leitt til grafalvarlegra mannréttindabrota gegn hundruðum þúsunda manna,“ stendur í skýrslunni. Kemur þar fram að þetta aukna vald sem neyðarástandið færir stjórnvöld virðist hafa þann tilgang að þagga niður alla gagnrýni á ríkisstjórnina. 

Zeid Ra'ad Al Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að niðurstöður skýrslunnar séu ógnvekjandi og forkastanlegar. „Tölurnar eru ótrúlegar: Næstum því 160 þúsund manns hafa verið handteknir frá því að neyðarástandinu var fyrst lýst yfir fyrir 18 mánuðum,“ segir í yfirlýsingu hans. Til viðbótar hafi 152 þúsund opinberum starfsmönnum verið sagt upp störfum, án nokkurs tilefnis, m.a. kennurum, dómurum og lögmönnum. Þetta fólk hafi verið rekið og ákært, blaðamenn hafi verið handteknir og fjölmiðlum og vefsíðum lokað. „Augljóslega hefur neyðarástandið sem lýst var yfir í Tyrklandi verið notað til að brjóta án tilefnis á mannréttindum mikils fjölda fólks.“

Í skýrslunni kemur fram að um 300 blaðamenn hafi verið handteknir fyrir meint brot sem sögð eru tengjast upphafningu hryðjuverka og stuðnings við þau. 

Listamenn og blaðamenn eru í hópi þeirra sem tyrknesk stjórnvöld …
Listamenn og blaðamenn eru í hópi þeirra sem tyrknesk stjórnvöld hafa handtekið. AFP

 Lokað hefur verið fyrir aðgang að um 100 þúsund vefsíðum, m.a. að síðum sem styðja málsstað Kúrda. 

Í skýrslunni er einnig fjallað um pyntingar sem beitt er í landinu. Fram kemur að fólk hafi sætt barsmíðum, verið hótað kynferðisofbeldi og verið beitt slíku ofbeldi, því hefur verið gefið raflost og notast hefur verið við hin alræmdu vatnsbretti til að knýja fram upplýsingar og játningar. 

Handtaka óléttar konur og mæður

„Eitt af því hroðalegasta sem sýnt hefur verið fram á að eigi sér stað er hvernig tyrknesk stjórnvöld hafa fangelsað um 100 konur sem voru annað hvort óléttar eða höfðu nýverið eignast börn. Oftast hafa þær verið handteknar og sagðar samverkamenn eiginmanna sinna sem svo aftur eru sagðir tengjast hryðjuverkasamtökum,“ segir í yfirlýsingu Zeid. Hann segir að stundum hafi börnin verið sett í varðhald með þeim en í öðrum tilvikum hafi þau verið tekin frá mæðrum sínum. „Þetta er algjörlega svívirðilegt, grimmilegt og getur án nokkurs vafa ekkert haft með öryggi landsins að gera.“

Þá segir í skýrslunni að þjóðaratkvæðagreiðsla, sem tryggði Erdogan forseta áframhaldandi völd, hafi verið mjög vafasöm. 

Í skýrslunni eru Tyrkir hvattir til að fella neyðarlögin úr gildi og koma á eðlilegum lögum og reglum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert