Réttað yfir móður sem drap fimm barna sinna

Franska lögreglan að störfum.
Franska lögreglan að störfum. AFP

Réttarhöld yfir franskri móður, sem sökuð er um að hafa drepið fimm nýfædd börn sín og falið lík þeirra í frysti, hófust í Bordeaux í gær.

Ramona Canete er 38 ára. Hún bjó þorpinu Louchats ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Þrjú ár eru liðin frá því að lík ungbarnanna fundust í frysti á heimili þeirra hjóna.

Það var dóttir hennar á unglingsaldri sem fann fyrsta líkið Hún sagði föður sínum frá því og lét hann lögregluna vita. 

Fyrsta líkið sem fannst var af dreng sem hafði fæðst aðeins tveimur sólarhringum áður en líkið fannst. Við krufningu kom í ljós að hann hefði fæðst heilbrigður og hefði getað lifað. Við frekari leit á heimilinu fundust fjögur barnslík til viðbótar. 

Í fyrstu voru foreldrarnir báðir handteknir. Eiginmaðurinn var ákærður fyrir að fela líkin og tilkynna ekki um andlát barnanna. Hann neitaði hins vegar alla tíð sök og sagðist ekki hafa einu sinni vitað að eiginkona hans var ólétt. Börnin fæddust og létust á tímabilinu 2005-2015. Hann var síðar hreinsaður af öllum ásökunum um að hafa átt þátt í málinu.

Lögfræðingur hans segir hann nú hafa fyrirgefið eiginkonu sinni og styðji hana skilyrðislaust.

Talið er að réttarhöldin standi fram á föstudag. Er talið að verjandi móðurinnar muni einblína á það að konan hafi neitað að trúa því að hún væri ólétt en dæmi um slíkt hafa áður komið upp. 

Annað sambærilegt mál hefur áður komið upp í Frakklandi en árið 2010 játaði kona að hafa myrt átta ungbörn sín með því að kæfa þau strax við fæðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert