Undirbúa aftökur 13 fanga

Þessi mynd var tekin árið 1995 þegar leiðtogi safnaðarins var …
Þessi mynd var tekin árið 1995 þegar leiðtogi safnaðarins var fluttur í dómssal. AFP

Yfirvöld í Japan eru talin vera að undirbúa aftökur þrettán meðlima sértrúarsafnaðarins Aum Shinrikyo sem báru ábyrgð á sarin taugagas-árásinni í neðanjarðarlestakerfi Tókýó árið 1995, en þeir hlutu allir dauðarefsingu. The Guardian greinir frá.

Í dag eru nákvæmlega 23 ár síðan árásin átti sér stað, en hún varð þrettán manns að bana og þúsundir veiktust, sumir mjög alvarlega.

Nokkrir úr hópnum voru í síðustu viku fluttir í gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir utan Tókýó og hefur því verið velt upp í fjölmiðlum hvort nú standi til að framfylgja dauðarefsingunni. Fangar eru yfirleitt ekki teknir af lífi í Japan fyrr en búið er að rétta yfir öllum hugsanlegum vitorðsmönnum, en síðustu réttarhöldunum lauk í janúar á þessu ári.

Árið 2008 var sett met í Japan þegar 15 fangar voru teknir af lífi á einu ári, en verði allir meðlimir Aum Shinrikyo sértrúarsafnaðarins sem nú sitja í fangelsi teknir af lífi á sama tíma, slagar það hátt upp í metið á einum og sama degi. Fangarnir verða hengdir.

Óljóst er hins vegar hvort allar fangarnir verða teknir af lífi sama dag, en yfirleitt hvílir mikil leynd yfir því hvenær dauðadómum er framfylgt í Japan, alveg fram á síðustu stundu. Fangar sem hafa verið vistaðir á dauðadeild árum saman fá oft ekki vitneskju um að taka eigi þá af lífi nema með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Þá eru fjölskyldur fanganna oft ekki látnar vita fyrr en búið er að hengja þá.

Nokkrir meðlimir safnaðarins sem nú bíða þess að dauðarefsingunni verði …
Nokkrir meðlimir safnaðarins sem nú bíða þess að dauðarefsingunni verði framfylgt. AFP

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að ef Japanir framfylgi dauðarefsingunum á næstu mánuðum sé það kaldhæðnisleg tilraun til drífa málið frá áður en nýr keisari tekur við völdum á ári og áður en Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó árið 2020.

„Það er eitt af einkennum siðaðra samfélaga að bera virðingu fyrir réttindum allra, líka þeirra sem bera ábyrgð á hræðilegum glæpum. Það er aldrei verið að framfylgja réttlætinu með dauðarefsingum því með þeim er verið að brjóta almenn mannréttindi,“ sagði Hiroka Shoji, talsamaður samtakanna í Austur-Asíu.

Líkt og áður sagði var árásin gerð þann 20. mars árið 1995, snemma morguns þegar neðanjarðarlestirnar voru yfirfullar af fólki á leið til vinnu. Meðlimir sértrúarsafnaðarins sprengdu poka með fljótandi sarin taugagasi í fimm lestarvögnum.

Shoko Asahara, leiðtogi safnaðarins, er einn þeirra sem hlaut dauðarefsingu fyrir aðild sína að árásinni, en samkvæmt því sem kemur fram í japönskum fjölmiðlum var hann ekki einn þeirra sem var færður í gæsluvarðhaldsfangelsið í síðustu viku. Skorað hefur verið á yfirvöld í Japan að milda dómana yfir öllum nema honum og breyta þeim í lífstíðarfangelsi, enda hafi aðrir meðlimir safnaðarins dansað eftir hans höfði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert