Ísrael viðurkennir loftárás á Sýrland 2007

Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael.
Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael. AFP

Stjórnvöld í Ísrael hafa staðfest að þau hafi varpað sprengjum á byggingu í Deir al-Zour héraði í Sýrlandi árið 2007,  sem talinn var hýsa kjarnakljúf sem þar hafi verið í smíðum.

Er þetta í fyrsta skipti sem Ísraelar viðurkenna að hafa staðið að baki árásinni á þeim rúmlega 10 árum sem eru liðinn frá atburðinum. Er ísraelski flugherinn nú sagður hafa varpað sprengjum á al-Kibar mannvirkinn í Deir al-Zour héraðinu, sem er um 450 km norðaustur af Damascus.

Sýrlensk stjórnvöld hafa ítrekað neitað því að þau hafi verið að smíða þar kjarnakljúf.

Í yfirlýsingu frá Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael, segir að óvinum Ísrael hafi aukist ásmegin undanfarin ár. „Styrku hers okkar, flughers okkar og máttur njósnastarfsemi okkar hefur hins vegar líka aukist frá því sem var 2007,“ sagði Lieberman.

„Það ættu allir í Mið-Austurlöndum að taka þann þátt með í jöfnuna.“

BBC segir í raun aldrei hafa leikið neinn vafa á að það hefði verið Ísraelsher sem stóð að árásunum á al-Kibar. Ástæðurnar fyrir því að Ísraels stjórnvöld kjósi að upplýsa þetta nú séu hins vegar áhugaverðar og að skilaboðin séu ætluð Írönum. Þetta sé það sem ísraelsk stjórnvöld séu tilbúin að gera rísi kjarnakljúfar í Íran í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert