„Það var mjög skrítið að gera svona lagað“

Teikning af Madsen við skýrslutökuna í dómsalnum.
Teikning af Madsen við skýrslutökuna í dómsalnum. AFP

„Hvernig getur þú yfir höfuð spurt um þetta?“ svaraði Peter Madsen, sem ákærður er fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall, samkvæmt fréttavef danska ríkisútvarpsins DR þegar Jakob Buch Jepsen saksóknari spurði hann fyrir dómi í dag hvort hann hefði svívirt lík hennar kynferðislega. Spurður hvort hann örvaðist kynferðislega af slíkum athöfnum svaraði hann því neitandi. Réttarhöld yfir Madsen héldu áfram í Kaupmannahöfn í morgun en við upphaf þeirra sagðist hann aðspurður enn neita sök í málinu.

Madsen hefur haldið því fram að Wall hafi látist af slysförum um borð í kafbátnum Nautilus sem hann smíðaði. Hann hefur hins vegar verið margsaga frá upphafi málsins um það með hvaða hætti hið meinta slys hafi átt sér stað. Upphaflega sagði Madsen að hann hefði sett Wall í land eftir að hún hafi farið í siglingu með honum í kafbátnum. Síðar viðurkenndi hann að hafa limað lík hennar í sundur eftir að líkamshlutar hennar fundust í sjónum.

Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen kemur til dómshússins í dag.
Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen kemur til dómshússins í dag. AFP

Fyrsta spurning saksóknarans, eftir að dómarinn hafði innt Madsen eftir því hvort hann héldi enn fram sakleysi sínu, var á þá leið hvaða verkfæri hann hefði notað til þess að sundurlima líki. Svar Madsen var á þessa leið: „Þú ert að koma inn á mjög óhugnanlegan atburð sem ég er ekki reiðubúinn að lýsa.“ Spurður áfram um málið sagði hann: „Ég vildi koma Kim Wall frá borði í heilu lagi, þetta tók mig klukkutíma. Eins og ég hef sagt þér þá var þetta svo hræðilegt að ég vil ekki fara ofan í smáatriði í þeim efnum.“

Saksóknarinn spurði Madsen síðan hvaða líkamshluta hann hafi fyrst fjarlægt. Madsen bað um skýringu á því hvers vegna það skipti máli. Saksóknarinn sagði það skipta máli en komið hefur áður fram hjá ákæruvaldinu að það tengist því með hvaða hætti Wall hafi látist. Hvort hún hafi til dæmis verið kyrkt eða skorin á háls. Saksóknarinn spurði hvers vegna Madsen hafi talið nauðsynlegt að fjarlægja höfuð hennar af búknum til þess að koma líkinu fyrir borð. Hann áttaði sig ekki á því. Madsen svaraði: „Það geri ég heldur ekki.“

Stungusárin til þess að hleypa lofti úr líkinu

Saksóknarinn spurði Madsen hvort einhver af þeim kvikmyndum sem hann hefði horft á í símanum sínum hefðu haft áhrif á hann í þessum efnum. Madsen neitaði því. Þess í stað sagðist hann talið sér trú um að ef hann kæmi líki Wall fyrir borð myndi málið allt hverfa. Saksóknarinn rifjaði upp ummæli Madsens frá fyrri stigum málsins um að hann hafi reynt að þyngja líkamsparta Walls til þess að þeir sykkju til botns. 

Spurður um stungusár á líki Walls sagði Madsen að þau hefðu snúist um að tæma loft úr líkinu til þess að það flyti ekki upp á yfirborðið. Hann neitaði því aðspurður að þau hefðu snúist um eitthvað kynferðislegt. Madsen vísaði þeirri kenningu saksóknarans á bug að ýmis verkfæri sem voru í kafbátnum hafi verið þar vegna þess að hann hafi skipulagt það fyrirfram að myrða Wall. Þau hafi verið þar að eðlilegum ástæðum.

Betina Hald Engmark, verjandi Madsens.
Betina Hald Engmark, verjandi Madsens. AFP

Spurður áfram um stungurásin ítrekaði Madsen að þau hafi snúist um að tæma loft úr líkinu. „Þetta var hræðilegt. Ég hef aldrei verið ofbeldisfullur í garð annarrar manneskju. En það var mjög skrítið að gera svona lagað. Ég byrjaði einhvers staðar síðan, já, fór ég yfir brúnina á Miklagljúfri.“ Spurður aftur að því af saksóknara hvort hann hafi svívirt lík Walls með kynferðislegum hætti svaraði Madsen með spurningu:

„Lagalega séð getur maður ekki átt samræði við einhvern sem er látinn, er það ekki satt?“ Hann bætti síðan við: „Þú hefur í skyn að hún hafi verið á lífi. Það var hún ekki.“ Saksóknarinn spurði síðan áfram um stungusárin. Madsen andvarpaði og sagði að það væri langur tími frá dauða Walls og að hann hefði engu meira við málið að bæta. Madsen vísaði ennfremur til fyrri ummæla saksóknarans um að hann tryði ekki miklu af því sem Madsen segði. Fyrir vikið skiptu útskýringar hans varla máli.

Spurður hvað hann hafi gert við föt Walls sagði Madsen að hann hefði afklætt líkið áður en hann hefði sundurlimað það. Hann hafi sett þau í plastpoka. Hann hafi einnig safnað saman hlutum sem hún hafi átt og verið hafi í kafbátnum og sett þá í pokann eftir að hann hefði varpað sundurlimuðu líkinu fyrir borð. Pokinn fannst á hafsbotni og saksóknari spurði hvort það hafi ekki verið til þess að fela málið. Madsen sagði svo hafa verið enda hafi hann viljað að slysið heyrði sögunni til.

Blaðamenn fyrir utan dómshúsið í Kaupmannahöfn í morgun.
Blaðamenn fyrir utan dómshúsið í Kaupmannahöfn í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert