Rétt náði að forða sér undan ísbirni

Fleiri ísbirnir en áður hafa sést í nágrenni byggðra bóla …
Fleiri ísbirnir en áður hafa sést í nágrenni byggðra bóla á Grænlendi í vetur. Skýringin er rakin til þess að hafísinn, sem birnirnir nota til veiða, er að minnka. AFP

Litlu mátti muna að illa færi er ísbjörn varð á vegi íbúa í grænlenska þorpinu Ittoqqortoormiit nýverið. „Ef vélsleðinn minn hefði ekki farið í gang á síðustu stundu þá væri ég ekki að tala við ykkur núna,“ segir Jan Lorentzen í samtali við grænlenska fréttamiðilinn Sermitsiaq.

Lorentzen fór í hús sitt í Uunarteq í fyrradag. Hann brá sér út fyrir og þá mætti honum stærðarinnar hvítabjörn. Hann greip til þess ráðs að hraða sér að vélsleðanum sínum sem var í um 10 metra fjarlægð. „En björninn birtist fyrir framan mig rétt áður en ég kom að sleðanum. Ég sló til hans þrisvar sinnum áður en ég komst á sleðann.“

Hann náði ekki að koma vélsleðanum í gang um leið en það tókst þó að lokum. „Um leið og hann fór í gang þá hljóp hann til baka. En ég keyrði og hann kom fljúgandi á eftir mér.“

Lorentzen segist sem betur fer hafa náð að koma sér í burtu. Björninn var felldur í kjölfarið.

Lorentzen segir sér hafa verið mjög brugðið. Hann er uppalinn á svæðinu en hefur aldrei komist í svo náin kynni við hvítabirni.

Í gær var annar hvítabjörn skotinn í nágrenni þorpsins. „Það eru mjög margir birnir hér í vetur,“ segir Lorentzen. „Þetta eru falleg dýr en þau eru líka hættuleg.“

Hafn Jökulsson, formaður skákfélagsins Hróksins, vakti athygli á fréttinni á Facebook-síðu sinni en leið Hróksins liggur til Ittoqqortoormiit um páskana. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert