„Sláandi og hryllileg tilhugsun“

Fyrrverandi starfsmaður Facebook segir yfirmenn hafa talið lagalega stöðu fyrirtækisins …
Fyrrverandi starfsmaður Facebook segir yfirmenn hafa talið lagalega stöðu fyrirtækisins sterkari ef það vissi ekki af því að önnur fyrirtæki væru að nýta persónugögn Facebook notenda. AFP

Það var alvanalegt að fjöldi fyrirtækja nýtti sér aðferðir á borð við þær sem Cambridge Analytica gerði til að safna upplýsingum um Facebook notendur. Þetta segir Sandy Parakilas, sem hafði umsjón með gagnarofi hjá fyrirtækinu á árunum 2011-2012,  í samtali við Guardian. Forsvarsmenn Facebook hafi hins vegar kosið að horfa framhjá þessu og líklegt megi telja að upplýsingar hundruð milljóna Facebook notenda hafi verið nýttar með þessum hætti.

Fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá því að Cambridge Ana­lytica hafi nýtt per­sónu­upp­lýs­ing­ar 50 millj­ón Face­book not­enda til að út­búa um­fangs­mik­inn gagna­grunn um banda­ríska kjós­end­ur án vitn­eskju Face­book. Gagna­grunn­ur­inn var síðan notaður til að reyna að fá ókveðna kjós­end­ur til að kjósa Don­ald Trump í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um haustið 2016.

„Hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta“

Parakilas segist hafa varað yfirmenn hjá Facebook við því að hætta væri á meiriháttar gagnaleka vegna kæruleysislegs viðhorfs þeirra til gagnaöryggis. „Mínar áhyggjur snéru að því að Facebook gat ekki fylgst með öllum þeim gögnum sem forritarar skildu eftir á Facebook, þannig að við höfðum ekki hugmynd um hvað þeir voru að gera við gögnin,“ segir hann.

Notendur hvorki skildu né læsu skilmála Facebook og fyrirtækið nýtti ekki eigin tækni eða óháða sérfræðinga til að tryggja að ekki væri verið að misnota gögnin.

„Það hefur verið sársaukafullt að horfa upp á þetta,“ segir Parakilas sem hafði það verkefni að rannsaka gagnarof forritara sambærilega þeim sem Global Science Research, fyrirtækið sem seldi Cambridge Analytica upplýsingarnar, stóð fyrir.

„Ég veit að þeir hefðu geta komið í veg fyrir þetta.“

„Viltu virkilega vita að hverju þú kemst“

Spurður hvers konar stjórn Facebook hafi haft á þeim gögnum sem utanaðkomandi forritarar nýttu sér, segir hann fyrirtækið ekki hafa haft neina stjórn á því. „Þegar gögnin fóru af netþjónum Facebook þá höfðum við enga yfirsýn yfir hvað gerðist.“

Hann kvaðst hins vegar alltaf hafa talið að einhverskonar svartamarkaðsbrask með Facebook gögn ætti sér stað. Þegar hann hafi hins vegar greint yfirmönnum samfélagsmiðilsins frá áhyggjum sínum og hvatt til þess að úttekt væri gerð á forriturunum og því sem þeir gerðu með upplýsingarnar þá hafi hann verið lattur til þess.

„Viltu virkilega vita að hverju þú kemst,“ sagði einn framkvæmdastjóranna við  hann. Sagðist Parakilas hafa túlkað þau varnarorð sem svo að lagaleg staða Facebook væri sterkari ef það vissi ekki um misnotkunina.

„Þeim fannst að það væri betra að vita þetta ekki. Mér fannst það fullkomlega sláandi og hryllileg tilhugsun sagði hann.“

Forsvarsmenn Facebook hafa ekki svarað fyrirspurnum Guardian. Samfélagsmiðillinn greindi hins vegar frá því í gær að ráðið hefði verið sérfræðifyrirtæki til að rannsaka gagnanýtingu Cambridge Analytica, en þegar hefur verið greint frá því að rúm tvö ár eru frá því að fyrirtækinu var fyrst tilkynnt um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert