Brottflutningur uppreisnarmanna frá Ghouta að hefjast

Rútur bíða í nágrenni Ghouta-héraðs eftir að fara inn á …
Rútur bíða í nágrenni Ghouta-héraðs eftir að fara inn á svæðið og flytja þaðan uppreisnarmenn. AFP

Rútur eru á leiðinni til austurhluta Ghouta-héraðs í Sýrlandi og munu þær samkvæmt samkomulagi stríðandi fylkinga flytja hundruð uppreisnarmanna og fjölskyldur þeirra á brott frá svæðinu. Stjórnarher Sýrlands og rússneskar hersveitir hafa gert sprengjuárásir í Ghouta vikum saman. Rússar fóru fyrir samningsgerðinni við uppreisnarhópanna. Samkomulagið er risavaxið skref í því að tryggja að fullu yfirráð Bashars al-Assad forseta yfir svæðinu á ný. Enn fara þó uppreisnarmenn með völdum á litlum svæðum í héraðinu er talið er að þeir muni nú einnig freista þess að semja við herinn. 

Tugir þúsunda almennra borgara eru enn innlyksa í Ghouta og hafa verið svo árum saman eða frá því að stjórnarherinn setti svæðið í herkví eftir valdatöku uppreisnarhópanna árið 2013.

Loftárásir hafa haldið áfram á héraðið í dag og í morgun féllu nítján óbreyttir borgarar í þeim, að því er bresku eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja.

Áhlaup stjórnarhersins og Rússa á svæðið hófst af fullum þunga  þann 18. febrúar og smám saman hefur þeim tekist að brjóta svæðið undir sitt vald að nýju. 

Brottflutningur uppreisnarmanna átti að hefjast snemma í morgun en hefur dregist.

Talið er að þeir verði fluttir til Idlib-héraðs sem er eitt síðasta vígi uppreisnarhópa í Sýrlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert