„Dansandi björn“ drapst í dýragarði

Einn síðasti „dansandi björn“ Nepals drapst skömmu eftir að honum hafði verið bjargað úr prísundinni og fluttur í dýragarð. Dýraverndunarfólk segir að vanræksla hafi valdið dauða bjarnarins.

Tveimur björnum var bjargað úr því hlutskipti að vera látnir dansa fyrir fólk í desember í fyrra. Par notaði birnina til að græða peninga af fólki á götum úti. 

Karldýrið Rangila var 19 ára er því var bjargað og kvendýrið Sridevi sautján ára. Þau voru flutt í dýragarð í nágrenni höfuðborgarinnar Katmandú. En þar voru þau sett í búr og höfð til sýnis. Skömmu síðar drapst Sridevi. 

„Okkur var sagt að hún hefði verið með lifrarsjúkdóm,“ segir Niraj Gautam, talsmaður Jane Goodall-stofnunarinnar í Nepal, sem kom að björgun bjarnanna. „Þessi dýr hefðu átt að fá betri læknisskoðun. En það var ekkert gert. Það er sú vanræksla sem við teljum að átt hafi sér stað.“

Gautam segir að birnirnir hefðu þurft að fá sérhæfða aðstoð til að jafna sig á þeim hremmingum sem þeir höfðu verið í allt sitt líf. Í dýragarðinum hafi þeir verið settir í lítil búr og til sýnis þrátt fyrir að hegða sér með þeim hætti að ljóst mætti vera að þeim liði illa, segir Gautam.

Ríkisstjórnin segir að dýragarðurinn hafi verið eina úrræðið sem stóð björnunum til boða. Dýraverndunarsamtök og stofnanir hafa farið þess á leit við ríkisstjórnina að hún komi birninum í friðland í nágrannalandinu Indlandi. Þar má finna marga birni sem bjargað hefur verði úr sambærilegri prísund og hægt að veita þeim sérhæfða aðstoð.

Allt frá árinu 1973 hefur verið bannað að nota birni í þeim tilgangi að skemmta fólki með dansi. Athæfið var bannað á Indlandi árið 2012. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert