Hungur eykst á ný

Þurrkatíð hefur verið langvarandi í Sómalíu og matur og vatn …
Þurrkatíð hefur verið langvarandi í Sómalíu og matur og vatn af skornum skammti. AFP

Um 124 milljónir manna víða um heim höfðu liðu matarskort í lok síðasta árs. Ástæðurnar eru fyrst og fremst stríð og þurrkar að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins um fæðuöryggi heimsins.

Verst var ástandið í norðausturhluta Nígeríu, í Sómalíu, Jemen og Suður-Súdan þar sem um 32 milljónir manna voru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð segir í ársskýrslu stofnananna. 

„Átök og áföll tengd veðurfari hafa að undanförnu orðið til  þess að auka á hungur í heiminum eftir að úr því hafði dregið jafnt og þétt í marga áratugi,“ segir m.a. í niðurstöðum skýrslunnar. Fjöldi þeirra sem líður matarskort var 15% meiri í fyrra en árið á undan. „Ekkert svæði heimsins er undanskilið,“ segir í skýrslunni. „Um alla Afríku, í Miðausturlöndum og á svæðum í Suður-Asíu hafa átök grafið undan fæðuöryggi.“

Átök eru ein helsta ástæða þess að fæðuöryggi er ótryggt …
Átök eru ein helsta ástæða þess að fæðuöryggi er ótryggt víða, m.a. í Sýrlandi. AFP

Þá er bent á að viðvarandi þurrkar í norðausturhluta Afríku, flóð í Asíu og fellibylir í Mið- og Suður-Ameríku og Karabíska hafinu hafi aukið á hungur á þessum svæðum. 

Talið er að átök eigi áfram eftir að vera einn helsti áhættuþátturinn þegar kemur að fæðuöryggi í ár. Í skýrslunni segir að vaxandi áhyggjur séu af ástandinu í Afganistan, í Mið-Afríku lýðveldinu, í Austur-Kongó, í norðausturhluta Nígeríu, í Tjad, Suður-Súdan, Sýrlandi og í Jemen. 

Verst er ástandið sagt vera í Jemen. „Talið er að ástandið þar eigi enn eftir að versna sérstaklega vegna hruns efnahags landsins og hafta við innflutning á neyðaraðstoð. Á sama tíma eru sjúkdómar að breiðast út.“

Sært barn á sjúkrahúsi í Saada í Jemen.
Sært barn á sjúkrahúsi í Saada í Jemen. AFP

Þá er búist við því að viðvarandi og alvarlegir þurrkar með tilheyrandi áhrifum á uppskeru og búfénað, eigi eftir að hafa mikil áhrif á fæðuframboð í Sómalíu, suðausturhluta Eþíópíu og austurhluta Kenía sem og í Senegal, Tjad, Níger, Malí og Búrkína Fasó.

Einn af þeim jákvæðu þáttum sem tilteknir eru í skýrslunni, sem er þó að mest svört, er að lönd í sunnanverðri Afríku munu líklega standa betur að vígi í ár þar sem kornframleiðsla hefur aukist og matarverð lækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert