Sarkozy: Engar haldbærar sannanir

Nicolas Sarkozy fyrrverandi forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy fyrrverandi forseti Frakklands. AFP

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, sem nú er til rannsóknar vegna ásakana um að hafa þegið fé frá Moamer Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra í Líbíu, í kosningabaráttu sinni árið 2007 segir engar haldbærar sannanir gegn sér vera í málinu. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá honum sem franskir fjölmiðlar birta í dag. 

„Ég er sakaður án nokkurra haldbærra sönnunargagna vegna yfirlýsingar sem Gaddafi, sonur hans, frændur hans, talsmaður hans og fyrrverandi forsætisráðherra hans, gerðu,“ segir í yfirlýsingu Sarkozys sem hann hefur einnig lesið fyrir dómara í málinu. 

„Líf mitt hefur verið helvíti vegna þessa rógs sem byrjaði 11. mars árið 2011,“ segir Sarkozy en þann dag setti Gaddafi fyrst fram sínar ásakanir í málinu.

Sarkozy var handtekinn fyrr í vikunni og hefur verið yfirheyrður í tvo daga vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert