135 hvalir drápust í fjöru

Hvalshræin í fjörunni.
Hvalshræin í fjörunni.

Að minnsta kosti 135 hvalir drápust í dag eftir að hafa synt upp í fjöru í Ástralíu. Björgunarteymi vann að því að koma þeim sem voru enn á lífi aftur út í sjó.

Talið er að um 150 hvalir hafi strandað í Hamelin-flóa suður af Perth. Sjómaður kom auga á þá í dögun en óttast var að hræ þeirra myndu laða að sér hákarla og því þurfti að bregðast hratt við.

Starfsmenn dýraeftirlits í Vestur-Ástralíu komu á vettvang og eru að meta ástand þeirra fimmtán hvala sem enn eru lifandi í fjörunni.

„Flestir voru komnir á þurrt og drápust,“ er haft eftir Jeremy Chick sem fer fyrir björgunaraðgerðinni. Hann segir að mikill vindur sé á svæðinu og að dýrin séu auk þess stór og sterk og því eigi eftir að koma í ljós hvernig björgunin takist til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert