Bannon „minnist þess ekki“ að hafa keypt gögn

Stephen Bannon á ráðstefnunni í New York í gær.
Stephen Bannon á ráðstefnunni í New York í gær. AFP

Steve Bannon, sem var einn helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, „minnist þess ekki“ að hafa keypt persónuupplýsingar frá Facebook er hann vann fyrir ráðgjafafyrirtækið Cambridge Analytica. 

Eftir ráðstefnu í New York í gær spurði fréttamaður CNN Bannon út í málið en fram hefur komið að gögn sem aflað var á Facebook-síðum 50 milljóna Bandaríkjamanna hafi verið misnotuð í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

Bannon var áður aðstoðarforstjóri Cambridge Analytica en forsvarsmenn ráðgjafafyrirtækisins segja að gögn sem fyrirtækið aflaði hafi m.a. verið notuð í kosningabaráttu Trumps. Sagði fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, sem nú hefur verið sagt upp störfum, að hann hefði hitt Trump margoft vegna málsins.

„Þessi Facebook-gögn eru reyndar til sölu víðsvegar um heiminn,“ sagði Bannon við fréttamann CNN. „Ég minnist þess ekki að hafa keypt þau. Það var þessi Cambridge-gaur.“

Í frétt CNN segir að kosningateymi Trumps hafi ráðið Cambridge Analytica í kosningabaráttunni. Þá hafi hópar sem studdu Trump einnig gert það. Upplýsingarnar voru svo notaðar til að beina ákveðnum skilaboðum að þessum hópi Facebook-notenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert