Fundu 15 lík aftan í flutningabíl

Lögreglumaður að störfum í Guerrero, en mikið er um ofbeldi …
Lögreglumaður að störfum í Guerrero, en mikið er um ofbeldi og glæpi í fylkinu. AFP

Lík 15 manns fundust aftan í yfirgefnum vöruflutningabíl í Michoacan-fylki í vesturhluta Mexíkó að því er saksóknari fylkisins greindi frá. AFP-fréttastofan segir yfirvöld telja morðin tengjast átökum skipulagðra glæpasamtaka um yfirráð yfir svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu saksóknara fannst flutningabíllinn yfirgefinn á þjóðveginum sem tengir bæina Aquila og Lazaro Cardenas, sem eru við strönd Kyrrahafsins. Skotsár voru á öllum líkunum og hafði þeim verið hlaðið upp aftan í bílnum að því er segir í yfirlýsingu.

Frumrannsókn bendir til þess að fórnarlömbin hafi verið félagar í glæpasamtökum, en Michoacan deilir fylkismörkum með Guerrero þar sem ofbeldi og glæpir eru tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert