Fundur Kim og Trump í uppnám?

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta AFP

Háttsettir embættismenn frá Norður- og Suður-Kóreu funda í vikunni á hinu svo nefnda hlutlausa belti milli ríkjanna tveggja. Fundarefnið er undirbúningur undir Kóreufundinn sem fyrirhugaður er í lok næsta mánaðar þar sem Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu hittast.

Á undirbúningsfundinum, sem haldinn verður á skírdag, mun sameiningarráðherra Suður-Kóreu, Cho Myoung-gyon leiða sendinefnd Suður-Kóreu en fyrir Norðanmönnum fer Ri Son-kwon, einn æðstu embættismanna ríkisins en hann var meðal þeirra sem heimsóttu Suður-Kóreu á dögunum í tilefni Vetrarólympíuleikanna.

Mikilvægt þykir að fundur leiðtoganna gangi vel því ráðgert er að Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti fundi nokkrum vikum síðar, þó enn eigi eftir að ákveða stað og stund. Sá fundur kann þó að vera kominn í uppnám.

Nýr þjóðaröryggisráðgjafi breytir leiknum

Örfáir dagar eru síðan Bandaríkjaforseti skipaði nýjan þjóðaröryggisráðgjafa, John R. Bolton. Skipan hans er ekki talin til þess fallin að liðka fyrir samskiptum ríkjanna tveggja, en Bolton, sem er fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur í gegnum tíðina haft miklar efasemdir um friðarumleitanir Suður-Kóreu í garð grannanna í norðri. Þá þykir stefna hans mjög herská. Bolton er einn fárra sem enn styðja innrásina í Írak, auk þess sem hann hefur talað fyrir því að steypa ríkisstjórn Íran af stóli.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur áður kallað Bolton „mannlegan sora“ og heitið að semja ekki við hann.

Verði af fundinum verður það í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna hittir leiðtoga Norður-Kóreu. Ríkin tvö eiga raunar tæknilega í stríði því Kóreustríðinu, sem lauk 1953 endaði ekki með friðarsáttmála heldur vopnahléi sem varað hefur síðan.

Það voru suður-kóreskir embættismenn sem komu boðum Kim Jong-Un til Bandaríkjaforseta til skila. Sérfræðinga greinir á um hvort boð Kims er merki um meiri háttar viðhorfsbreytingu í átt að afvopnun kjarnorkuvopna eða einungis skammtímabragð til að blekkja óvininn og kaupa tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert