Í sambýli með hinum látnu

Töluvert er um að fátækustu íbúar Manila, höfuðborgar Filippseyjar, búi …
Töluvert er um að fátækustu íbúar Manila, höfuðborgar Filippseyjar, búi í fátækrahverfum sem risið hafa í kirkjugörðum borgarinnar. Mynd úr safni. AFP

„Ég hef búið hérna í 51 ár og hef síðastliðin 51 ár verið að reyna að komast í burtu,“ segir Elvira Miranda ein íbúanna í Norður Manila kirkjugarðinum í viðtali við Guardian. Töluvert er um að fátækustu íbúar Manila, höfuðborgar Filippseyjar, hafist við í fátækrahverfum sem risið hafa í kirkjugörðum borgarinnar.

„Stjórnvöld vilja að við förum og við viljum líka fara, en við þurfum að hafa einhvern stað til  að fara á,“ bætir Miranda við. Hún er 68 ára og hefur frá árinu 1966 búið ásamt eiginmanni sínum og börnum í hrörlegum kofa ofan á grafhvelfingum í þessum elsta og stærsta kirkjugarði borgarinnar.

Guardian segir marga þeirra sem eru fátækir, atvinnu- og heimilislausir í einni af þéttbýlustu borgum heims vera í sömu stöðu og Miranda.

Manila er ein þéttbýlasta borg heims og mikill fjöldi íbúa …
Manila er ein þéttbýlasta borg heims og mikill fjöldi íbúa úr sveitum landsins streymir stöðugt til borgarinnar í leit að tækifærum að betra lífi. Við komuna uppgötva hins vegar flestir að litla vinnu er að fá og ekkert húsnæði nema í sjálfsprottnum samfélögum, sem sum hafa risið upp í kirkjugörðum borgarinnar. AFP

„Við höldum kirkjugarðinum hreinum og samfélagið heldur sig út af fyrir sig. Fæstir hérna hafa fastar tekjur, heldur reynum við að grípa í verkefni hér og þar til að reyna að láta enda ná saman. Við seljum blóm til syrgjenda, búum til legsteina og smíðum líkkistur.“

Húsnæðið frítt en þjónustan engin

Manila er ein þéttbýlasta borg heims og mikill fjöldi íbúa úr sveitum landsins streymir stöðugt til borgarinnar í leit að tækifærum til betra lífs. Við komuna uppgötva hins vegar flestir að litla vinnu er að fá og ekkert húsnæði nema í sjálfsprottnum samfélögum, sem sum hafa risið í kirkjugörðum borgarinnar. Þar sefur fólk í hrörlegum kofum sem hafa verið reistir ofan á grafhýsum. Húsnæðið er frítt, en grunnþjónustan er engin, hvorki rafmagn, rennandi vatn né salernisaðstaða, hvað þá viðunandi húsaskjól.

Fátækrahverfi hafa verið til staðar í kirkjugörðum á Filippseyjum frá því á sjötta áratug síðustu aldar. Nokkrar kynslóðir fjölskyldna hafa nú alist upp í Norður Manila kirkjugarðinum. Í dag er talið að um 6.000 manns úr 800 fjölskyldum búi þar, auk þeirra milljón manna sem þar hvíla nú bein sín.

Sumir íbúanna starfa sem umsjónarmenn í garðinum og þiggja greiðslu frá ættingjum hinna látnu fyrir að hirða um grafreiti þeirra. Greiðslan er ekki há stundum um 600 pesóar, eða um 1.300 kr. á ári. Aðrir íbúar setja upp tímabundnar verslanir á staðnum eða starfa þar við legsteinasmíði, en á bilinu 80-100 jarðarfarir eru haldnar í garðinum dag hvern.  

Býr í kofa á grafhýsi sonarins

Lífið í kirkjugarðinum er ekki auðvelt og tíð áhlaup lögreglunnar á Filippseyjum í fíkniefnastríði forsetans Rodrigo Duterte, auðvelda íbúunum ekki lífið. Sumar grafirnar geyma fórnarlömbin sem hafa verið feld án dóms og laga í fíkniefnastríði Dutertes, sem frá því í júní 2016 hefur kostað rúmlega 12.000 manns lífið. Guardian segir margar lögregluaðgerðanna fara fram í kirkjugarðinum.

Ein slík rassía átti sér stað í Norður Manila kirkjugarðinum 3. ágúst í fyrra. Hún kostaði Irish, 37 ára gamlan son Carmelitu Bahacan lífið. „Það kvöld komu um 50 lögreglumenn inn í kirkjugarðinn,“ segir hún. „Þeir skutu hann fimm sinnum. Hann lést af fyrsta skotinu, en þeir héldu samt áfram að skjóta.“

Bahacan settist að í kirkjugarðinum 1992. Hún býr nú í kofa sem er byggður ofan á grafhýsinu þar sem að sonur hennar er grafinn.

„Ég kann því vel að hann sé grafinn rétt hjá mér. Hann er grafin í grafhýsi föður míns. Ég mun deyja einhvern tímann og þá vil ég líka láta grafa mig þar.

Lögreglan á Filippseyjum segir mikið um glæpi og fíkniefnanotkun í kirkjugörðunum. „Margir íbúanna í fátækrahverfunum er atvinnulausir og sumir þeirra leiðast út í glæpi til að  sjá fjölskyldum sínum farborða,“ segir lögregluforinginn Erwin Margarejo. „Kirkjugarðarnir hér eru felustaðir fyrir glæpamenn.“

Bahacan er á öðru máli. „Það voru áður vandamál með fíkniefni hér,“ segir hún. „Núna er fólk hætt að nota þau. Fíkniefnarassíur eru þó farnar hingað annan hvern dag á kvöldin eða í morgunsárið þegar enn er myrkur og allt er rólegt. Þeir skjóta og drepa okkur í kirkjugarðinum.“

Fíkniefnalögreglan í Manila í rassíu. Íbúar kirkjugarðanna hafa ekki farið …
Fíkniefnalögreglan í Manila í rassíu. Íbúar kirkjugarðanna hafa ekki farið varhluta af fíkniefnastríði Rodrigo Duterte frekar en margir aðrir. AFP

„Sonur minn er saklaus“

Peningaleysi kemur síðan í veg fyrir að íbúarnir geti látið rannsaka skotárásir lögreglunnar og þar sem að engar opinberar skráningar er að finna yfir íbúafjölda kirkjugarðanna þá eru íbúarnir auðveld skotmörk fyrir þá sem skjóta án dóms og laga.

Hinn sjötugi Ricardo Medina býr einnig í nágrenni grafar sonar síns Ericardo. Hann var drepinn af lögreglu 16. nóvember 2016.

„Ég var að horfa á sjónvarpið hérna og sá þá Ericardo,“ segir Medina. „Límband var vafið um höfuð hans og hann var með pappaspjald bundið um brjóstkassann og á því stóð „fíkniefnasali“, en sonur minn var saklaus.“

Ericardo hvílir nú í sömu gröf og eiginkona Medina í nokkurra metra fjarlægð frá húsi hans. „Mér finnst gott að hafa hann nálægt. Mér finnst gott að geta séð hann þegar ég vakna ... og að ég geti annast gröf hans.“

Biðst alltaf afsökunar

Medina flutti inn í Pasay kirkjugarðinn árið 1967. Á þeim tíma bjó enginn þar að hans sögn. „En sjáðu þetta núna. Bara í þessum hluta búa 50 fjölskyldur.“

Medina starfar við að grafa upp beinagrindur, því að í fjölmennri borg eins og Manila eru grafreitir leigðir út til fimm ára í senn, og greiði fjölskyldan ekki leiguna þá eru beinin grafin upp og brennd.

„Ég kann því vel að búa hérna, svæðið er rólegt, húsnæðið er ókeypis og vinnan góð. Ég get fengið greidda 50 pesóa fyrir að grafa upp gröf barns og 150 pesóa fyrir að grafa upp gröf fullorðins einstaklings. Það er mikið af líkum hérna og þar af leiðandi nóg vinna fyrir mig. Þetta gerir mér kleift að fæða fjölskyldu mína og hjálpa fólki. Svo verður einhver að gera þetta,“ segir hann.

„Það eru engir draugar hér, en þegar ég er að grafa upp lík þá biðst ég alltaf afsökunar og segi að mér þykir leitt að trufla. Þetta er snýst um að sýna virðingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert