Skripal bað Pútín um náðun

Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006.
Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006. AFP

Rússneski gagnnjósnarinn Sergei Skripal, sem varð fyrir taugagaseitrun í verslunarmiðstöð í Bretlandi fyrr í mánuðinum, skrifaði Vladimír Pútin Rússlandsforseta fyrir nokkrum árum og baðst afsökunar á að hafa selt Bretum upplýsingar um rússneska leyniþjónustumenn.

Þetta hefur BBC eftir Vladimir Timoshkov, fyrrum skólafélaga Skripal. Sagði Timoshkov að Skripal, sem kom til Bretlands 2010 í kjölfar fangaskipta, hefði haft samband við sig 2012 og sagst langa til að heimsækja Rússland.

Rússnesk yfirvöld neita þeirri fullyrðingu og segir rússneska sendiráðið í London á Twitter-síðu sinni að „ekkert bréf hafi borist frá Sergei Skripal til Pútín Rússlandsforseta um að fá leyfi til að snúa aftur til Rússland.“

Timoshkov segist hafa misst tengslin við Skripal eftir að skóla lauk, en að hann hefði sett sig í samband við dóttur hans Yuliu þegar hann frétti að Skripal hefði verið fangelsaður fyrir landráð.

„Hann hringdi í mig 2012 og við töluðum saman í um það bil hálftíma. Hann hringdi í mig frá London og neitaði að hann væri föðurlandssvikari,“ sagði Timoshkov í viðtali við BBC. Kvað hann Skripal hafa sagt sér að hann hefði skrifað „Vladimír Pútín og beðið hann um náðun og að fá leyfi til að heimsækja Rússland. Móðir hans, bróðir og aðrir ættingjar væru þar.“

Sagði Timoshkov vin sinn sjá eftir að hafa gerst gagnnjósnari af því að líf sitt hefði með því farið út af sporinu. „Margir hunsuðu hann og bekkjarfélögum hans fannst hann hafa svikið föðurlandið.“

Skripal og Yulia dóttir hans eru enn meðvitundarlaus eftir taugagasárásina sem hefur haft verulega slæm áhrif á samskipti breskra og rússneskra ráðamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert