Fjarlægðu styttu af kvensjúkdómalækni

Styttan af James Marion Sims hefur nú verið fjarlægð úr …
Styttan af James Marion Sims hefur nú verið fjarlægð úr Central Park og henni komið fyrir í nágrenni grafreitar hans í Brooklyn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Yfirvöld í New York hafa fjarlægt styttu af umdeildum 19. aldar kvensjúkdómalækni úr Central Park garðinum. Læknirinn James Marion Sims, sem hefur verið lýst sem „faðir kvensjúkdómalækninga“ framkvæmdi læknisfræðilegar tilraunir á svörtum kvenþrælum án þess að nota deyfilyf.

BBC segir nefndina sem hefur umsjón með minnismerkjum borgarinnar hafa fyrr í vikunni samþykkt einróma að fjarlægja styttuna í kjölfar umfjöllunar um „haturstákn“.

Hefur styttan verið færð um 16 km leið og stendur nú í nágrenni grafreitar Sims í Brooklyn.

Sims fæddist í Suður-Karólínuríki 1813. Hann varð frægur fyrir lagfæringar sínum á svo nefndum pípusárum, sem á þeim tíma ullu þvagleka eftir barnsburð. Tilraunir hans á svörtum þrælum hafa hins vegar sætt síaukinni gagnrýni hin síðari ár, ekki hvað síst vegna þess að aðgerðirnar gerði hann án deyfilyfja og í sumum tilfellum gerði hann sömu aðgerðina ítrekað á sama einstaklingi.

Styttan af Sims var afhjúpuð í Central Park á tíunda áratug nítjándu aldar og hefur hún frá 1934 staðið andspænis New York Academy of Medicine. Það var síðan í kjölfar þess að kona var myrt á fjöldasamkomu hægri öfgasamtaka í Charlottesville síðasta haust sem Bill de Blasio, borgarstjóri New York, fyrirskipaði að farið skyldi yfir öll minnismerki borgarinnar og haturstáknmyndir fjarlægðar.

Hefur borgarráð New York tilkynnt að til standi að setja upplýsingaspjald á stall styttunnar þar sem saga minnismerkisins verði útskýrð, auk þess sem pantað verði nýtt listaverk sem taki á þeim vandamálum sem arfleifð Sims feli í sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert