Reyndu að brenna líkið í garðinum

Frank Berton, lögfræðingur fjölskyldu Sophie Lionnet, ræðir við fjölmiðla.
Frank Berton, lögfræðingur fjölskyldu Sophie Lionnet, ræðir við fjölmiðla. AFP

Karlmaður, sem nú er fyrir rétti ákærður fyrir að hafa ásamt sambýliskonu sinni myrt franska au pair-stúlku sem starfaði hjá þeim, segist hafa reynt að lífga hana við áður en þau brenndu lík hennar. 

Maðurinn, Ouissem Medouni, er sakaður um að hafa ásamt sambýliskonu sinni, Sabrinu Kouider, myrt fóstruna Sophie Lionnet. Er Kouider sögð hafa verið sannfærð um að Lionnet væri að njósna um sig fyrir fyrrverandi kærasta sinn Mark Walton, sem áður var í drengjasveitinni Boyzone. Taldi hún Walton hafa heitið fóstrunni frægð og fé ef hún veitti honum upplýsingar um sig.

Lionnet lést í september í fyrra, eftir að parið hafði þvingað upp úr henni játningu um tengsl sín við Walton, sem þau tóku að hluta til upp á myndband. Sagðist Medouoni hafa farið í rúmið eftir að þau fengu játninguna og að hann hafi ætlað að afhenda lögreglunni upptökuna næsta dag. Kouider hafi hins vegar haldið áfram að yfirheyra fóstruna.

Foreldrar Sophie Lionnet, þau Catherine Devallonne og Patrick Lionnet, koma …
Foreldrar Sophie Lionnet, þau Catherine Devallonne og Patrick Lionnet, koma í réttarsalinn. AFP

Hringdu ekki á sjúkrabíl til að vernda börnin

„Sabrina vakti mig um hálftvö,“ sagði hann. Hún sagði að Sophie væri hætt að anda.“ Hann hafi þá fylgt henni inn á bað, þar sem hann fann Lionnet liggjandi í baðinu. Kouider hafi verið í áfalli þegar þetta var og hafi endurtekið í sífellu „hvað hef ég gert, hvað hef ég gert?“

Hann hafi því tekið Lionnet úr baðinu og flutt hana inn í stofuna þar sem hann reyndi að blása lífi í hana. „Ég byrjaði strax að hnoða hana, ég vissi hvernig á að gera það,“ sagði Medouni. „Ég taldi mig geta lífgað hana við. Ég reyndi og reyndi,“ segir hann.

Þau hafi hins vegar ekki hringt á sjúkrabíl af því að þau hafi viljað „vernda börnin“.  Hann segist því næst hafa sett hana í efstu koju, þar sem hann hafi sett hana í ferðatösku.

Tveimur dögum síðar hafi Kouider krafist þess að þau græfu Lionnet í garðinum.  „Ég sagði „Ertu biluð? Ég geri það aldrei.“,“ sagði Medouni og kveðst því næst hafa látið undan.

Reyndu að fela brunalyktina með grillkjöti

Til að dylja lyktina er þau brenndu hana hafi hann um leið sett kjúkling á grillið til að nágrannarnir teldu þau vera að grilla.

Meðan á þessu stóð hafi Kouider farið í sturtu „til að hreinsa burt syndir sínar“.

Nágrannarnir höfðu hins vegar samband við slökkvilið Lundúnaborgar og kvörtuðu undan reyk og vondri lykt.

Medouni fullyrti að hann væri að grilla lamb er slökkviliðið kom á vettvang, en slökkviliðsmennirnir komu auga á brunnið lík Lionnets á eldinum.

Bæði Medouni og Kouider hafna því að um morð hafi verið að ræða en segjast sek um að hafa reynt að fela lík hennar. Dánarorsök Lionnet er hins vegar ókunn vegna áverkanna sem hlutust er þau reyndu að losa sig við lík hennar. Réttarmeinafræðingar segja hana þó hafa verið marða og með brákuð rifbein og bringubein. Þá áverka hafi hún fengið einum og hálfum til þremur dögum áður en hún lést.

Segir saksóknari parið hafa pyntað Lionnet og látið hana sæta yfirheyrslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert