Var smyglað til Þýskalands og neydd í vændi

Þýska lögreglan við húsleit í tengslum við mál smyglhringsins.
Þýska lögreglan við húsleit í tengslum við mál smyglhringsins. AFP

Rúmlega 100 manns hafa verið hneppt í varðhald í Þýskalandi eftir húsleit í tengslum við rannsókn á glæpagengi sem m.a. stundaði smygl á fólki og þvingaði það í vændi. BBC segir hina handteknu vera bæði Þjóðverja og Taílendinga og að lögregla hafi gert húsleit í tugum vændishúsa og íbúða í tólf sambandsríkjum landsins. Var konum og transkonum smyglað til landsins á fölsuðum vegabréfum.

Segir þýski innanríkisráðherrann, Horst Seehofer að „hundruð kvenna og karla hafi árum saman verið fórnarlömb ómannúðlegrar og botnlausrar græðgi  smyglaranna“.

Talið er að 17 hinna handteknu séu höfuðpaurar í málinu.

Þegar búið var að smygla fórnarlömbunum frá Taílandi til Þýskalands, þá voru þau látin starfa við vændi og flutt á milli vændishúsa. Segir þýska lögreglan þau hafa verið látin afhenda allt fé sem þau unni sér inn til að greiða fyrir falsaða vegabréfið og flutninginn til Þýskalands og var skuld hvers og eins sögð nema allt að 36.000 evrum eða um 4,4 milljónir króna.

Hundruð þúsunda starfa við vændisiðnaðinn í Þýskalandi, en vændi var lögleitt í landinu árið 2002.

Lög um vændi voru þó hert á síðasta ári til að reyna að koma í veg fyrir þrælahald og þurfa þeir sem starfa í vændisiðnaðinum nú að skrá sig hjá yfirvöldum á hverjum stað, auk þess sem ólöglegt er að nýta þjónustu þeirra sem neyddir eru í vændi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert