Kóngurinn breytir nafni Svasílands

Konungurinn Mswati III (t.v.) ásamt Tsai Ing-Wen, forseta Taívan, (t.h.) …
Konungurinn Mswati III (t.v.) ásamt Tsai Ing-Wen, forseta Taívan, (t.h.) í konungshöllinni í Manzini í gær. Hann hefur formlega breytt nafni Svasílands. AFP

Konungur Svasílands, Mswati III, tilkynnti í gær að hann hygðist breyta opinberu nafni ríkisins í „Konungsríki Svasímanna,“ eða upp á ensku „the Kingdom of eSwatini“.

eSwatini þýðir „land Svasímanna“ á svatí, öðru opinberu tungumáli ríkisins. Konungsríkið á landamæri að Suður-Afríku og Mósambík og þar býr tæplega ein og hálf milljón manna.

BBC greinir frá því að konungurinn, sem er algjör einvaldur í Afríkuríkinu, hafi tilkynnt um nafnbreytinguna á hátíðarhöldum vegna 50 ára sjálfstæðis Svasímanna, en hátíðarhöldin í gær voru einnig afmælisfagnaður einvaldsins, sem fæddist 19. apríl árið 1968 og er því fimmtugur í dag.

Samkvæmt BBC er breyting á formlegu heiti ríkisins óvænt útspil, þrátt fyrir að konungurinn hafi notað nafnið eSwatini áður, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári.

Fréttaritari BBC í Svasílandi, Nomsa Maseko, segir að tilkynningin hafi vakið reiði sumra landsmanna, sem vilja fremur að konungurinn einbeiti sér að bágbornum efnahag landsins.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt stjórn Svasílands fyrir að banna stjórnmálaflokka og kynbundna mismunun, en konungurinn er helst þekktur fyrir það á alþjóðavísu að eiga fimmtán eiginkonur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert