Má segja frá sambandinu við Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Samkomulag liggur fyrir á milli bandaríska fjölmiðlafyrirtækisins American Media, sem á og rekur slúðurblaðið The National Enquirer, og fyrirsætunnar Karen McDougal um að hún verði ekki lengur bundin af samningi sem kom í veg fyrir að hún gæti tjáð sig opinberlega um meint samband hennar við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Karen McDougal.
Karen McDougal. AFP

Fram kemur í frétt AFP að samkomulagið stöðvi dómsmál sem McDougal hafði höfðað gegn fyrirtækinu og hefði þýtt að Trump hefði dregist inn í málaferlin sem hefðu meðal annars fjallað um viðleitni til þess að kaupa þögn kvenna meðan á kosningaherferð hans stóð í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

Trump hefur vísað því á bug að hann hafi átt í sambandi við McDougal. Talsmaður American Media hefur staðfest að samkomulagið hafi verið gert og að McDougal muni verða á forsíðu tímaritsins Men's Journal í september og verða umfjöllunarefni í langri grein í blaðinu. Haft er eftir McDougal að henni sé létt að geta loks sagt sannleikann.

Fjölmiðlafyrirtækið keypti réttinni til þess að segja sögu McDougals árið 2016 fyrir 150 þúsund dollara og skuldbindingu um að fjalla um líkamsræktarferil hennar. Hins vegar var aldrei fjallað um frásögn hennar. Samkvæmt nýja samkomulaginu á fyrirtækið rétt á ákveðinni hlutdeild í mögulegum framtíðarhagnaði af sögunni.

Haft er eftir lögfræðingi McDougal að á lögmannsstofu hans sé ánægja með að hafa gert McDougal kleift að ná hagstæðri niðurstöðu sem veiti henni frelsi til þess að þurfa ekki að óttast það að segja sannleikann. McDougal hafði sakað American Media um að hafa blekkt sig til þess að samþykkja fyrra samkomulagið við fyrirtækið.

Enn fremur sakaði McDougal lögmann Trumps, Michael Cohen, um að hafa óeðlileg afskipti af málinu en upphaflega samkomulagið við hana er nú hluti af rannsókn alríkislögreglunnar FBI á störfum Cohens. Gögn sem FBI lagði hald á í húsleit á skrifstofu Cohens tengjast greiðslum til McDougals og klámstjörnunnar fyrrverandi Stormy Daniels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert