Giuliani til starfa fyrir Trump

Fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, Rudy Giuliani, mun verða hluti af persónulegu lögfræðingateymi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. Lögmaður forsetans, Jay Sekulow, greindi frá þessu í gær. 

Viku áður höfu fulltrúar alríkislögreglunnar leitað á heimili og skrifstofum lögfræðings Trumps, Michael Cohen. 

Í tilkynningu frá Sekulow kemur fram að forsetinn hafi sagt: „Rudy er frábær. Hann hefur verið vinur minn í langan tíma og vill að þetta mál verði til lykta leitt með hraði. Það sé þjóðfélaginu til góða.“

Sekulow segir að Giuliani, sem var borgarstjóri 1994 til 2001, hafi verið mjög þakklátur fyrir að forsetinn hafi viljað leyfa honum að veita aðstoð við þetta mikilvæga mál.

Sekulow nafngreindi tvo lögmenn, Jane Serene Raskin og Marty Raskin, til viðbótar sem væru komnir til starfa með teyminu en þeir eru báðir þekktir verjendur í hvítflibba-sakamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert