Skutu dróna niður skammt frá konungshöllinni

Riyadh er höfuðborg Sádi-Arabíu.
Riyadh er höfuðborg Sádi-Arabíu. Kort/Google

Sádiarabískar öryggissveitir skutu niður leikfangadróna sem var á flugi skammt frá konungshöllinni í höfuðborginni Riyadh. Mikill viðbúnaður var í borginni vegna atviksins.

Fjölmiðlar þar í landi greina frá því að kl. 19:50 að staðartíma (kl. 16:50 að íslenskum tíma) hafi öryggisverðir við eftirlitsstöð í Khuzama-hverfi tekið eftir dróna á flugi.

Myndskeið hafa verið birt á samfélagsmiðlum þar sem heyra má háværa skothvelli í hverfinu, en einhverjir töldu að tilraun til valdaráns væri hafin. Stjórnvöld vísa því á bug að nokkurs konar öryggisbrestur hafi orðið vegna málsins sem verið væri að rannsaka. 

Ekki hafa verið veittar upplýsingar um það hvar konungur Sádi-Arabíu var staddur eða krónprinsinn þegar þetta gerðist. 

Undanfarna mánuði hefur öryggisgæsla við hallir konungsfjölskyldunnar verið hert, en krónprinsinn Mohammed bin Salman hefur ráðist í umfangsmiklar efnahagslegar- og félagslegar umbætur í landinu til að búa það undir tíma þegar olíunnar nýtur ekki lengur við. Þetta gerir hann þrátt fyrir andstöðu harðlinumanna og trúarleiðtoga. 

Krónprinsinn, sem er 32 ára gamall, hefur einnig gert viðamiklar breytingar á her landsins og hreinsað til í konungshöllinni á sama tíma og hann treystir völd sín, en hann stefnir í að verða mun valdameiri en forverar hans. 

Í október í fyrra skaut vopnaður maður tvo sádiarabíska öryggisverði til dauða og særði þrjá til viðbótar við hlið konungshallarinnar í borginni Jeddah við Rauðahaf. Öryggisverðir felldu byssumanninn sem var 28 ára gamall sádiarabískur ríkisborgari. Hann var vopnaður hríðskotariffli og handsprengjum. 

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa lengi átti í útistöðum við vopnaða hreyfingu Húta í Jemen, sem nýtur stuðnings stjórnvalda í Íran. Sameinuðu þjóðirnar segja að ástandið í Jemen, sem tengist átökunum, sé eitt það versta sem samtökin hafa staðið frammi fyrir. 

Liðsmenn Húta hafa margsinnis skotið flugskeytum yfir landamærin til Sádi-Arabíu. M.a. á höfuðborgina Riyadh. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segjast hafa náð að granda flestum þeirra með eldflaugavarnakerfi landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert