24 látist í mótmælum síðustu daga

Námsmenn kljást við herlið á götum höfuðborgarinnar Managva í gær.
Námsmenn kljást við herlið á götum höfuðborgarinnar Managva í gær. AFP

Að minnsta kosti 24 eru látnir í Níkaragva eftir mótmæli þar í landi, sem stigmagnast hafa frá því þau hófust á miðvikudag. Mótmælin brutust út vegna áforma ríkisstjórnar Daniel Ortega um yfirhalningu á lífeyriskerfi landsins.

Forsetinn hefur brugðist við mótmælunum með því að senda herlið á göturnar, sem meðal annars hefur ráðist gegn blaðamönnum. Þá hefur ríkisstjórninn reynt að þagga niður í umfjöllun fjölmiðla um óeirðirnar.

Evrópusambandið, Bandaríkin og Vatíkanið hafa öll lýst áhyggjum af ástandinu og kallað eftir ró í landinu. Samkvæmt heimildum fréttaveitu AFP hafa 24 látist í óeirðunum síðan á miðvikudag.

Við völd frá árinu 2007

Sérfræðingar um atvinnulíf og stjórnmál landsins segja mótmælin eiga sér dýpri rætur en ætla mætti í fyrstu.

„Svona ástand hefur ekki sést í mörg ár í Níkaragva,“ segir Carlos Tunnermann, fyrrverandi sendiherra Níkaragva í Bandaríkjunum, í samtali við AFP. „Það er ólga í þjóðinni, ekki aðeins vegna þessara áforma heldur einnig vegna þess hvernig landinu hefur verið stjórnað.“

Forsetinn, Daniel Ortega, hefur verið við völd frá árinu 2007, en áður gegndi hann embætti forseta frá 1985 til 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert