Nakta árásarmannsins leitað

Vöfflustaðurinn í Nashville þar sem fjórir létust í skotárás nakins …
Vöfflustaðurinn í Nashville þar sem fjórir létust í skotárás nakins manns. Ljósmynd/Lögreglan í Nashville

Nakta mannsins sem skaut fjóra til bana með hálfsjálfvirkum riffli á vöfflustað skammt frá Nashville í Bandaríkjunum er nú leitað. Viðskiptavinur náði skotvopninu af manninum, sem síðan flúði á tveimur jafnfljótum. BBC greinir frá.

Til viðbótar við þá fjóra sem létust í árásinni eru fjórir slasaðir. Lögreglan leitar nú mannsins, en hún hefur borið kennsl á þann grunaða, sem er sagður vera hinn 29 ára Travis Reinking.

Sagt er að árásarmaðurinn hafi verið íklæddur grænum jakka þegar hann hóf skotárásina, en að hann hafi síðan farið úr honum og sé því nakinn.

Vopnið sem hann notaði var AR-15 riffill, sem er gjarnan notaður af skotárásarmönnum. Svipaður riffill var notaður þegar 58 létust í skotárás í Las Vegas í október á síðasta ári, sem og í árásinni á skóla í Flórída nú í febrúar, þar sem 17 nemendur og starfsmenn létust.

Maðurinn réðst inn á vöfflustaðinn kl. 03:25 að staðartíma og hóf skotárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert