Á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi

Dómshúsið í Kaupmannahöfn.
Dómshúsið í Kaupmannahöfn. AFP

Dómur verður kveðinn upp í Danmörku á miðvikudaginn yfir danska uppfinningamanninum Peter Madsen sem ákærður er fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall um borð í kafbátnum Nautilusi, sem hann smíðaði, í ágúst á síðasta ári.

Wall þáði boð Madsens um að skoða kafbátinn og fara í stutta sjóferð í honum en hún skilaði sér aldrei aftur í land. Madsen hélt því fyrst fram að hann hefði sett hana í land. Síðar viðurkenndi hann að Wall hefði látist um borð í kafbátnum en sagði það hafa gerst af slysförnum. Þvertók hann fyrir að hafa orðið henni að bana.

Við rannsókn málsins var meðal annars leitað að líki Walls í sjónum þar sem kafbáturinn hafði siglt um sem leiddi til þess að kafarar fundu líkamshluta sem staðfest var í kjölfarið að hefðu tilheyrt Wall. Madsen hafnar því enn að hafa myrt Wall.

Madsen hefur þó viðurkennt að hafa sundurlimað lík Walls en segir að það hafi hann gert til þess að eiga auðveldara með að koma því frá borði. Stungugöt á líkamshlutunum voru að hans sögn hugsuð til þess að losa um loft svo þeir sykkju frekar.

Myndbönd hafa fundist á tölvu Madsens þar sem konur eru myrtar. Meðal annars með því að skera þær á háls en saksóknarar telja að þannig hafi Madsen myrt Wall eftir að hafa bundið hana. Telja þeir að það hafi tekið hana nokkurn tíma að deyja.

Saksóknarinn í málinu, Jakob Buch-Jepsen.
Saksóknarinn í málinu, Jakob Buch-Jepsen. AFP

Madsen hefur margoft breytt framburði sínum í yfirheyrslum og fyrir dómi en geðlæknar sem skoðuðu hann segja hann mjög ótrúverðugan og hafa að sögn saksóknara lýst honum sem sjúklegum lygara. Hann sýni enn fremur litlar tilfinningar.

Þó hefur Madsen á stundum sýnt af sér merki um einhvers konar iðrun. Lokaorð hans í réttarhöldunum í dag voru á þá leið að honum þætti mjög leitt að þetta skyldi gerast og við réttarhöldin sagði hann enn fremur að þetta væri hræðilegt.

Frétt mbl.is: Madsen: Mér finnst þetta miður

Þannig hefði hann aldrei verið ofbeldisfullur í garð annarrar manneskju og fyrir vikið væri mjög skrítið að gera svona lagað. Þar var hann að vísa til þess þegar hann hefði stungið líkið með eggvopni og sundurlimað það síðan í kjölfarið.

Madsen hefur einnig verið sakaður um að hafa beitt Wall grófu kynferðislegu ofbeldi, jafnvel eftir að hún var látin, en hann hefur þvertekið fyrir það. Spurningum saksóknara í þeim efnum hefur hann svarað með því að hneykslast á þeim.

Verði Madsen fund­inn sek­ur á hann yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi sem er 15 til 17 ár í fang­elsi.

Verjandi Madsens, Betina Hald Engmark.
Verjandi Madsens, Betina Hald Engmark. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert