Níu látnir og sextán slasaðir í Toronto

Bifreiðin sem ekið var á gangandi vegfarendur í Toronto í …
Bifreiðin sem ekið var á gangandi vegfarendur í Toronto í Kanada í dag. AFP

Fram kemur í kanadískum fjölmiðlum að níu manns hafi látið lífið þegar karlmaður ók hvítum sendiferðabíl á gangandi fólk í miðborg Toronto-borgar í Kanada í kvöld. Lögreglan sagði upphaflega að tíu manns hefðu orðið fyrir meiðslum en síðar að of snemmt væri að staðfesta hversu margir hefðu orðið fyrir bifreiðinni. AFP greinir frá því að 16 manns hafi slasast. 

Sendiferðabílnum, sem hafði verið tekinn á leigu, var í kjölfarið ekið á brott en ökumaðurinn var handtekinn stuttu síðar. Atburðurinn átti sér stað á Yonge-stræti við hornið á Finch-breiðstræti. Ekki hefur verið staðfest að um ásetning hafi verið að ræða.

„Þetta verður flókin rannsókn,“ segir lögregluvarðstjórinn Peter Yuen í samtali við fréttamenn. Ökumaður bílsins flúði af vettvangi á sendibílnum en hefur verið handtekinn. 

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, ræddi atburðinn í kanadíska þinginu þar sem hann sagði hug þingmanna hjá þeim sem orðið hefði fyrir bifreiðinni, vinum þeirra og vandamönnum. Trudeau sagði ekki tímabært að segja meira um málið. Ekki hefur komið fram hvort litið sé svo á að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. 

Breitt yfir fórnarlamb á götunni.
Breitt yfir fórnarlamb á götunni. AFP

„Hann ók mjög hratt,“ sagði Alex Shaker sem varð vitni að atburðinum. „Það eina sem ég sá var fólk sem var ekið niður, hvert af öðru. Það voru svo margir sem lágu á götunni.“ Rifjað er upp í fréttinni að árásir þar sem bifreiðum er ekið á gangandi vegfarendur hafi átt sér stað í ýmsum borgum á undanförnum árum, svo sem London, París og New York.

Enn fremur kemur fram að atburðurinn nú eigi sér stað á sama tíma og fundur ráðherra öryggismála sjö helstu iðnríkja heimsins, Bandaríkjanna, Japans, Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Kanada, færi fram í Toronto. Þá fari fundur utanríkisráðherra sömu landa fram í borginni um næstu helgi. Ekki er vitað hvort tengsl eru þar á milli.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert