„Brennum þau lifandi“

Frá Mytilene á Lesbos í gærkvöldi. Fólk reynir að mynda …
Frá Mytilene á Lesbos í gærkvöldi. Fólk reynir að mynda varnargirðingu í kringum flóttamennina sem öfgamenn vildu brenna lifandi. AFP

Til átaka kom á torgi í miðborg Mytilene á Lesbos í gærkvöldi þegar öfgamenn réðust á hóp flóttamanna sem þar eru í setuverkfalli vegna bágs aðbúnaðar á grísku eyjunni. Nokkrir tugir slösuðust í átökunum sem stóðu langt fram eftir nóttu að sögn lögreglu.

Um 200 afganskir hælisleitendur hófu setuverkfall á torginu í síðustu viku vegna þess aðbúnaðar sem þeir búa við í flóttamannabúðum á eyjunni. Um klukkan 20 í gærkvöldi komu félagar í öfgahópi (Patriotic Movement) inn á torgið og létu ekki lögreglu stöðva sig við að henda flöskum og kveikja elda á torginu á sama tíma og þeir æptu slagorð eins og „Brennum þau lifandi“ og „Hendum þeim í sjóinn“.

Mótmælt á Sapfous-torgi.
Mótmælt á Sapfous-torgi. AFP

Átökin stigmögnuðust þegar vinstri sinnaðir aðgerðarsinnar komu á torgið til þess að styðja við flóttafólkið með því að slást við öfgasinnana. Þrátt fyrir að lögreglan hafi beitt táragasi þá stöðu átökin yfir í nánast alla nótt eða þar til lögregla rýmdi torgið. Afgönsku flóttamennirnir neyddust því einnig til að yfirgefa torgið og fara að inn í flóttamannabúðirnar að nýju. Á annan tug flóttamanna meiddist í átökunum og voru fluttir á sjúkrahús.

Yfir 6.500 flóttamenn eru á Lesbos en rými er fyrir 3 þúsund manns í flóttamannabúðum á eyjunni. Yfir ein milljón, mest fólk á flótta undan stríðinu í Sýrlandi, kom til Grikklands árið 2015. Eftir að Evrópusambandið gerði samning við Tyrki um að senda flóttafólk til baka þangað hefur dregið mjög úr komu flóttafólks til Grikklands. Þrátt fyrir það eru yfir 13 þúsund flóttamenn fastir í flóttamannabúðum á fimm grískum eyjum þar sem þeir bíða þess að hælisumsóknir þeirra séu afgreiddar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert