Flúði inn í skóg á brókinni

Travis Reinking.
Travis Reinking. AFP

Ekkert hefur spurst til manns sem skaut fjóra til bana á veitingastað í Nashville, Tennessee frá því skömmu eftir árásina aðfaranótt sunnudags. 

Að sögn lögreglu í Nashville sást morðinginn, Travis Reinking, 29 ára, fyrir utan fjölbýlishúsið sem hann býr,  í gærmorgun. Hans er því enn leitað og svæðið enn lokað fyrir gestum. Reinking kom inn á veitingastaðinn vopnaður riffli og skammbyssu og nakinn að öðru leyti en því að klæðast jakka.

Yfirvöld í Tennessee hafa staðfest að  Taurean Sanderlin, 29 ára, Joe Perez, 20 ára og Deebony Groves, 21 árs hafi látist á vettvangi en fjórða fórnarlambið, Akilah Dasilva, 23 ára hafi látist á sjúkrahúsi. Tveir særðust í árásinni.

Lögreglan telur að Reinking hafi losað sig við jakkann þegar hann flúði heim eftir árásina. Þar klæddist hann nærbrók og hljóp út í skóg. 

James Shaw.
James Shaw. AFP

Áður en honum tókst að flýja af vettvangi náði James Shaw, 29 ára, að afvopna hann en Shaw náði af honum rifflinum eftir að hafa falið sig fyrir skothríðinni inni á salerni. Hann kom þannig í veg fyrir að Reinking næði að skjóta fleiri. 

„Þú færð ekki að hitta margar hetjur á lífsleiðinni en Shaw þú ert hetjan mín. Þú bjargaðir lífi fólks,“ sagði framkvæmdastjóri veitingastaðarins Waffle House, Walt Ehmer, við Shaw í gær en sá síðarnefndi vill lítið gera úr afrekum sínum í samtali við fjölmiðla. 

„Ég gerði þetta til þess að bjarga sjálfum mér,“ sagði Shaw við fréttamenn. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert