Hætta að varpa Kpop til norðurs

Landamæri Suður- og Norður-Kóreu eru hin vígvæddustu í heimi. Horft …
Landamæri Suður- og Norður-Kóreu eru hin vígvæddustu í heimi. Horft frá landamærastöð í suðri sést Norður-Kóreskt hátalarakerfi sem varpar áróðri. AFP

Suður-Kórea hefur ákveðið að slökkva á hátölurum sem beint er að Norður-Kóreu við landamæri ríkjanna, samkvæmt BBC. Hátölurunum hefur verið beitt til þess að gagnrýna stjórnvöld í Norður-Kóreu ásamt því að spila Suður-Kóreska popptónlist.

Hátalarar Suður-Kóreu er beint yfir landamærin til norðurs og heyrist hljóð frá þeim vel meðal hermanna og íbúa í nærliggjandi þorpum.

Yfirvöld Suður-Kóreu segjast slökkva á hljóðkerfinu til þess að bæta andrúmsloftið fyrir fund leiðtoga ríkjanna. Kim Jong-Un, Leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hittast á föstudag.

Norður-Kórea hefur sitt eigið hljóðkerfi sem þeir beita með sama hætti, en ekki er ljóst að þeir munu slökkva á hátölurum sínum. Þó tilkynnti ríkið á dögunum að það myndi leggja af tilraunaskotum kjarnorkueldflauga.

Einnig hefur tilkynning Norður-Kóreu verið talin jákvæður fyrirboði vegna fundar leiðtoga ríkisins og Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert