Brenndi 18 inni á karaoke-stað

AFP

Átján létust og fimm slösuðust þegar kveikt var í karaoke-stað í suðurhluta Kína í dag. Lögreglan handtók brennuvarginn en hann hafði lokað innganginum að staðnum með því að leggja vélhjóli fyrir hann þannig að fólk komst ekki út af staðnum eftir að eldurinn kviknaði.

Eldurinn kviknaði eftir miðnætti og er ljóst að um íkveikju er að ræða en greiðlega gekk að slökkva eldinn í húsinu sem er á þremur hæðum í Yingde, Guangdong-héraði.

Samkvæmt fréttum kínverskra fjölmiðla lenti brennuvargurinn í rifrildi við annan mann, lagði vélhjólinu fyrir útihurð byggingarinnar og kveikti í. Maðurinn var handtekinn fljótlega eftir að yfirvöld hétu þeim, sem gætu veitt upplýsingar um hvar hann væri að finna, greiðslu. 

Í frétt Xinhua-fréttastofunnar kemur fram að maðurinn, Liu Chunlu, 32 ára, hafi játað sök en hann var handtekinn á heimili sínu. Hann var með brunasár á mjöðm. „Ég var drukkinn í gærkvöldi og lenti í slagsmálum við fólk sem ég þekkti ekki,“ á Liu að hafa sagt við lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert