Finnar hætta borgaralaunatilrauninni

Greiðslu borgaralauna verður hætt um næstu áramót.
Greiðslu borgaralauna verður hætt um næstu áramót. AFP

Stjórnvöld í Finnlandi hafa tilkynnt að hætt verði með borgaralaunatilraun að loknu tveggja ára tilraunatímabili. Segir í frétt Guardian um málið að finnsk stjórnvöld hafi hafnað beiðni um aukið fjármagn til að útvíkka tilraunina og að þess í stað ætli þau að herða á bótareglum.

Mun borgarlaunatilrauninni ljúka á næsta ári og ætla stjórnvöld þess í stað að kanna leiðir með óhefðbundnar breytingar á bótakerfinu.

Frá því í janúar 2017 hafa 2.000 atvinnulausir Finnar, sem valdir voru af handahófi, fengið greiddar 560 evrur í borgaralaun á mánuði. Greiðslunni fylgdu engin skilyrði um að leita að vinnu eða að taka starfi sem viðkomandi væri ekki sáttur við. Þeir sem ráða sig í vinnu á þeim tíma sem tilraunin stendur yfir munu áfram fá borgaralaunin greidd ofan á önnur laun.

Nú hafa hins vegar stjórnvöld hafnað beiðni Kela, finnsku vinnumálastofnunarinnar, um að framlengja verkefnið og útvíkka það og segja greiðslur til núverandi þátttakenda munu leggjast niður í janúar á næsta ári.

Þá hafa stjórnvöld lagt fram lagafrumvarp sem kveður á um að atvinnuleysisbætur verði skilyrtar því að þeir sem þær þiggja fari í þjálfun eða vinni að minnsta kosti 18 stundir yfir þriggja mánaða tímabil. „Stjórnvöld eru að gera breytingar og færa kerfið frá grunntekjum,“ sagði Miska Simanainen forstjóri Kela í samtali við Svenska Dagbladet.

Vonast var til að borgaralaunatilraunin myndi varpa ljósi á það hvort að borgaralaun án nokkurra skilyrða myndu draga úr starfstengdum kvíða þeirra sem eiga í erfiðleikum með að fóta sig á vinnumarkaði. Olli Kangas, einn sérfræðinganna sem stóðu að tilrauninni, sagði sambandi við finnsku sjónvarpsstöðina YLE að tvö ár væru of stuttur tími til að komast að niðurstöðu. „Við hefðum þurft lengri tíma og meira fé til að komast að áreiðanlegum niðurstöðum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert