Bann sett við útleigu íbúða til ferðamanna í Palma

Íbúar í Palma mega ekki leigja ferðamönnum íbúðir sínar frá …
Íbúar í Palma mega ekki leigja ferðamönnum íbúðir sínar frá með júlímánuði. Ljósmynd/Wikipedia.org

Íbúar í borginni Palma á Mallorca á Spáni mega ekki lengur leigja íbúðir sínar til ferðamanna. Er Palma fyrsta borgin á Spáni sem bannar slíka útleigu. Bannið tekur gildi í júlí á þessu ári og mega íbúar búast við sekt upp á 400 þúsund evrur, eða 50 milljónir íslenskra króna, brjóti þeir gegn því. The Guardian greinir frá.

Bannið nær þó aðeins yfir íbúðir í fjölbýlishúsum en áfram má leigja út einbýlishús eða aukahús á lóð. Var þessi ákvörðun tekin til að reyna að takmarka áhrif mikils ferðamannastraums á íbúa í borginni, en víða á Spáni hefur verið gripið til einhverra aðgerða í þeim tilgangi.

Talið er að óskráðum leiguíbúðum ætluðum ferðamönnum hafi fjölgað um 50 prósent á frá árinu 2015 til 2017 í Palma, en á sama tíma hefur leiguverð í borginni hækkað um 40 prósent, að fram kemur í spænska dagblaðinu El Pais. Þar er haft eftir skipulagsfulltrúa borgarinnar að bein tengsl séu þarna á milli. „Það þarf að vera einhver regla á hlutunum. Ferðamenn munu áfram geta leigt húsnæði í Palma, en aðeins þar sem það er nauðsynlegt.“

Blaðið greinir einnig frá því að aðeins séu tilskilin leyfi fyrir skammtímaleigu á 645 íbúðum af þeim 20 þúsund sem talið er að leigðar séu ferðamönnum. Þá hefur kvörtunum íbúa vegna ónæðis frá ferðamönnum í íbúðahverfum fjölgað mikið síðustu misseri.

Yfirvöld í Barcelona hafa einnig gripið til aðgerða til að takmarka útleigu á íbúðum til ferðamanna, en háar sektir sektir eru við því að auglýsa óskráðar íbúðir á síðum eins og Airbnb. Þá ganga sérstakir starfsmenn borgarinnar á milli hverfa og ganga úr skugga um að leyfi séu til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert