Gætu þurft að endurvekja innflytjendaúrræði

Þeir sem hafa notið góðs af úrræðinu eru gjarnan kallaðir …
Þeir sem hafa notið góðs af úrræðinu eru gjarnan kallaðir Dreamers. AFP

Nú hefur þriðji alríkisdómarinn fyrirskipað að ríkisstjórn Donald Trump skuli endurvekja svokallað Daca-úrræði þar sem ungir innflytjendur fá leyfi til að dvelja í Bandaríkjunum á ákveðnum forsendum. Þeir sem hafa notið góðs af úrræðinu eru gjarnan kallaðir Dreamers. BBC greinir frá.

John Bates, alríkisdómari í Columbia, sagði að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við úrræðið væri nánast óútskýrð. Bates hefur nú gefið ríkisstjórninni 90 daga til að réttlæta ákvörðun sína á lagalegum forsendum áður en úrskurður hans tekur gildi. Fyrirskipun hans er í anda fyrirskipunar tveggja annarra alríkisdómara í New York og San Francisco.

Farið var af stað með Daca-úrræðið í stjórnartíð Barack Obama og nær það til um 800 þúsund ungra innflytjenda í landinu. Í september á síðasta ári tók hins vegar Trump ákvörðun um að hætt yrði við úrræðið frá og með mars á þessu ári.

AFP

Eins og staðan er núna er úrræðið lokað fyrir fleiri innflytjendum, en þeir sem hafa þegar fengið leyfi til að vera á landinu á forsendum Daca-úrræðisins geta endurnýjað réttindi sín á meðan farið er yfir lagaleg rök fyrir því að því skuli alfarið hætt.

Trump hefur sagt að æ fleiri ólöglegir innflytjendur nýti sér úrræðið og að Mexíkó sinni ekki landamæragæslu sem skyldi.

Úrræðið snýst um að vernda börn óskráðra innflytjenda fyrir því að vera vísað úr landi. En þeir sem komast inn í úrræðið fá bæði atvinnu- og námsleyfi í Bandaríkjunum.

Til að vera gjaldgengur þarf viðkomandi að vera undir 30 ára og gefa yfirvöldum upp allar persónuupplýsingar ásamt heimilisfangi og símanúmeri. FBI skoðar bakgrunn allra sem fara inn í úrræðið og verða þeir að hafa hreint sakavottorð. Viðkomandi verður að vera í námi, hafa nýlega útskrifast eða verið leystur undan herskyldu með láði. Meirihluti þeirra sem úrræðið nær yfir eru frá Mexíkó eða öðrum löndum Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert