Lofaði morðingja fyrir árásina

Alek Minassian, sem varð 10 manns að bana er hann ók á gangandi vegfarendur í Toronto á mánudagskvöldið, lofaði morðingjann Elliot Rodger á Facebook nokkrum mínútum áður en hann lét til skara skríða að því er BBC greinir frá.

Rodger myrti sex manns og særði fjórtán í skotárás á háskóla í Santa Barbara í Kaliforníu 2014 og tók að því loknu eigið líf.

Minassi­an kom fyr­ir dóm í gær þar sem gef­in var út ákæra á hend­ur hon­um fyr­ir mann­dráp af fyrstu gráðu. Hann er einnig ákærður fyr­ir marg­ar til­raun­ir til mann­dráps. 10 lét­ust og 15 slösuðust í árás­inni í gær.

Sagði Minassian í Facebook-færslu sinni að uppreisn þeirra sem ekki væru skírlífir að eigin ósk væri loksins hafin og að öllu myndarlega fólkinu yrði steypt af stóli. „Allir fagni hinum ofurmannlega herramanni Elliot Rodger!“

Minassian er þá sagður hafa eytt löngum stundum á svonefndri Incel-spjallsíðu á Reddit þar sem karlar kvarta yfir skírlífi sínu og kenna konum um. Síðunni var lokað fyrir nokkru.

Graham Gibson hjá lögreglunni í Toronto sagði á fundi með fréttamönnum að konur væru fjölmennastar í hópi þeirra sem létust og særðust í árásinni.

Nöfn þeirra sem létust hafa enn ekki verið gerð opinber.

Minassi­an er í haldi lög­reglu og hefur verið yfirheyrður. Hann hef­ur ekki komið við sögu lög­reglu og er ekki að finna í gagna­söfn­um henn­ar. Ekki er vitað til að hann teng­ist hryðju­verka- eða öfga­sam­tök­um af nokkru tagi.

Mjálmaði með spenntar greipar

Kanadíski herinn hefur staðfest að Minassian hafi gegnt herþjónustu um tveggja mánaða skeið síðla árs í fyrra. Hann óskaði síðar eftir því að losna undan herþjónustu og var orðið við því.

Fyrrverandi skólafélagar Minassian segja hann hafa verið í skóla í norðurhluta Toronto fyrir nemendur með sérþarfir. Sagði einn skólafélaganna, Shereen Chami, að hann hafi gengið um skólasvæðið með höfuð ofan í bringu sér og greipar spenntar og gefið frá sér mjálmhljóð.

Hann hafi þó ekki verið ofbeldishneigður. „Hann var ekki félagslyndur, en eftir því sem ég best man var hann algjörlega meinlaus,“ sagði Chami við Reuters.

Vic Minassian, faðir Alek Minassian sem myrti 10 manns í …
Vic Minassian, faðir Alek Minassian sem myrti 10 manns í miðbæ Toronto, yfirgefur hér réttarsalinn. AFP
Blóm, kerti og minnisspjöld hafa verið sett upp við árásarstaðinn.
Blóm, kerti og minnisspjöld hafa verið sett upp við árásarstaðinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert