Madsen dæmdur í lífstíðarfangelsi

 Uppfinningamaðurinn Peter Madsen er sekur um morðið á Kim Wall og var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi. 

Dómur í þessu umtalaðasta morðmáli síðari ára í Danmörku var kveðinn upp í héraðsdómi Kaupmannahafnar í dag í kjölfar réttarhalda sem staðið hafa frá 8. mars. Yfir 100 blaðamenn frá ýmsum löndum fylgdust með uppkvaðningunni. Á meðan dómarinn las upp niðurstöðuna horfði Madsen niður fyrir sig í dómssalnum.

Sjaldgæft er að svo þungur dómur sé kveðinn upp í Danmörku. Þessi langa refsing helgast m.a. af því að dómarinn álítur að Madsen hafi skipulagt morðið og brotið kynferðislega gegn Wall.

Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen sagði í málflutningi sínum allt benda til þess að Madsen hefði myrt Wall um borð í kafbátnum. Betina Hald Engmark, verjandi Madsen, hélt því hins vegar fram að um slys hefði verið að ræða. 

Peter Madsen er 47 ára uppfinningamaður og eigandi kafbátsins Nautilus. Kim Wall var þrítug, sænsk blaðakona sem hafði hug á að skrifa um geimferðarhugmyndir Madsens. Í því skyni sigldi hún með honum til hafs á kafbátnum síðdegis þann 10. ágúst á síðasta ári.

Átti velgengni að fagna

Kim Wall hafði þrátt fyrir ungan aldur átt velgengni að fagna í starfi. Hún var ævintýragjörn, hafði ferðast víða um heim og skrifað greinar um loftslagsbreytingar og áhrif stríðs og hamfara á samfélög, svo dæmi séu tekin. Guardian og New York Times voru meðal þeirra fjölmiðla sem höfðu birt skrif hennar. Hún átti framtíðina fyrir sér í blaðamennskunni og hafði ákveðið að flytja til Kína ásamt kærasta sínum. Vinir lýsa henni sem forvitinni, heiðarlegri og réttsýnni. Því hafi þeim ekki komið á óvart að hún elti næsta fréttamál ofan í kafbát með heimsþekktum uppfinningamanni.

 Wall mætti á Refshalen-bryggju í Kaupmannahöfn snemma kvölds þann 10. ágúst í fyrra. Hún hafði mælt sér mót við Madsen og sagt kærasta sínum frá fyrirætlunum sínum. Í því samtali lýsti hún því að hún væri örlítið stressuð. Þó ekki vegna Madsens, hún hafði enga ástæðu til þess, heldur kveið hún því að kafa í bátnum. 

Peter Madsen er hann kom í land eftir að hafa …
Peter Madsen er hann kom í land eftir að hafa verið bjargað af sjófarendum að morgni 11. ágúst. AFP

Hún fór um borð í kafbátinn sem Madsen sigldi svo frá bryggju. Fólk á ferð um svæðið tók mynd af bátnum þar sem hann var ofansjávar. Þar mátti sjá þau bæði; Madsen og Wall, standa í opi hans. Wall brosandi út að eyrum í góða veðrinu. Það er síðasta myndin sem tekin var af Wall á lífi.

 „Ég er enn á lífi, svo þú vitir það,“ skrifaði hún í skilaboðum til kærasta síns er um borð í bátinn var komið. „En nú förum við niður [að kafa]. Ég elska þig! Hann kom með kaffi og kökur líka.“

Kærastinn, Ole, reyndi að senda henni skilaboð síðar um kvöldið en án árangurs. Um miðnætti tilkynnti hann um hvarf hennar. 

Madsen sigldi bátnum svo um Eyrarsundið og inn í Køge-flóa. 

Bjargað af sjó

Morguninn eftir sökk kafbáturinn og Madsen var bjargað af sjófarendum í flóanum. Hann minntist ekki einu orði á Wall. Hann kom í land og ræddi þá stuttlega við fjölmiðlamenn. Enn benti ekkert í máli hans til annars en að hann hefði verið einn á ferð í bátnum. Hann var hins vegar fljótlega handtekinn þar sem þegar hafði verið lýst eftir Wall.

Madsen sagði bátinn hafa bilað og sokkið en rannsókn lögreglu sýndi að það hefði verið viljaverk. Ellefu dögum eftir að Wall hvarf fóru líkamsleifar hennar að finnast og fljótlega varð ljóst að lík hennar hafði verið brytjað í sundur. Madsen gaf sífellt nýjar skýringar.

Síðasta myndin sem tekin var af Kim Wall á lífi.
Síðasta myndin sem tekin var af Kim Wall á lífi.

Í fyrstu hélt hann því fram að hann hefði skilið við Wall á bryggju kvöldið sem þau fóru í siglinguna. Um það fundust engar vísbendingar. Madsen var því hnepptur í gæsluvarðhald og snemma grunaður um að bera ábyrgð á dauða hennar. 

Líkamsleifar finnast

Þann 21. ágúst, eftir að líkamsleifar blaðakonunnar hófu að finnast, gaf Madsen aðra útgáfu af atburðunum. Sagði hann lögreglu að „hræðilegt slys“ hefði orðið um borð í bátnum. Wall hefði fengið lúgulok bátsins í höfuðið og látist. Hann hefði kastað líki hennar fyrir borð í Køge-flóa.

Leitað að munum í tengdum Kim Wall.
Leitað að munum í tengdum Kim Wall. AFP

Þessum framburði breytti hann svo enn einu sinni þann 30. október. Þá sagði hann Wall hafa orðið fyrir kolmónoxíðeitrun í bátnum á meðan hann var sjálfur á þilfari hans. Hann viðurkenndi að hafa sundurlimað lík hennar en því hafði hann áður neitað. „Þegar mér tókst loks að opna hlerann þá kom heitt loftský á móti mér. Ég fann hana svo lífvana á botni bátsins og ég reyndi að vekja hana, sló hana utan undir,“ sagði Madsen við réttarhöldin. Hann hafi svo reynt að draga lík hennar upp úr bátnum en það hafi ekki gengið og því hafi hann gripið til þess ráðs að brytja það niður. Hann sagðist ekki hafa viljað segja strax frá þessum gjörningi sínum af virðingu við fjölskyldu Wall.

Vill Madsen í líftíðarfangelsi

Í réttarhöldunum varð ljóst að það væri himinn og haf á milli lýsinga saksóknarans, sem byggðu á fjölda sönnunargagna og vitnisburða, og verjandans, sem byggði málflutning sinn aðallega á lýsingum Madsens sjálfs. Verjandinn hélt því fram að málatilbúningur saksóknarans væri fyrst og fremst byggður á kenningum um hvað gerðist raunverulega á meðan saksóknarinn sagði öll sönnunargögn benda til morðs, ekki slyss.

Ingrid Wall og Joachim Wall, foreldrar Kim Wall segjast hafa …
Ingrid Wall og Joachim Wall, foreldrar Kim Wall segjast hafa upplifað helvíti á jörð eftir að dóttir þeirra hvarf. Þau voru viðstödd réttarhöldin í Kaupmannahöfn. AFP

Saksóknarinn fór því fram á að Madsen yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa beitt Wall kynferðisofbeldi og drepið hana, annað hvort með því að skera hana á háls eða kyrkja hana.  Einnig fyrir að hafa sundurlimað lík hennar og svo villt um fyrir lögreglu er upp komst um ofbeldisverk hans. Hann sagði Madsen hafa lagt á ráðin um ofbeldisverkið, þar hafi ekkert stundarbrjálæði ráðið för. 

Verjandinn vildi hins vegar að Madsen yrði dæmdur til stuttrar fangelsisvistar og þá aðeins fyrir að hafa sundurlimað lík Wall.

Breyttur framburður

Peter Madsen breytti framburði sínum nokkrum sinnum frá því að hann var handtekinn og sagði saksóknarinn við réttarhöldin að það benti eindregið til sektar hans. Hann var látinn undirgangast geðmat og komust læknar að því að hann væri mjög ótrúverðugur og í raun „sjúklegur lygari“ eins og saksóknarinn orðaði það í málflutningi sínum. Þá fundust blóðslettur á fötum Madsen og niðurstaða rannsókna á þeim passar ekki við þann framburð Madsen að Wall hafi verið dáin í meira sjö klukkustundir er hann sundurlimaði lík hennar. Þá bendir krufning á líki Wall til þess sama. Einnig var það mat sérfræðivitnis að Wall hefði ekki látist með þeim hætti sem Madsen lýsti í sinni þriðju og síðustu útgáfu af örlögum hennar. 

Sterkustu rök verjandans voru þau að niðurstaða krufningar gæti ekki staðfest fyllilega hver dánarorsök Wall var. Einnig hélt hann því fram að ekki væri hafið yfir allan vafa að Madsen hefði beitt hana kynferðisofbeldi á meðan hún var á lífi. Þá lagði verjandinn mikla áherslu á að engin lífssýni úr Wall hefðu fundist á snæri sem saksóknarinn hélt fram að Madsen hefði notað til að binda Wall.

Kim Wall átti framtíðina fyrir sér í blaðamennsku. Hún var …
Kim Wall átti framtíðina fyrir sér í blaðamennsku. Hún var þrítug er hún lést.

Madsen fékk að hafa síðasta orðið í réttarsalnum í gær áður en málið var lagt í dóm. Samkvæmt lýsingu danskra fjölmiðla leit hann á foreldra Wall, sem voru viðstaddir réttarhöldin, og sagði: „Mér þykir þetta mjög, mjög leitt.“

Hægt er að áfrýja dómnum sem féll í dag til Landsréttar Danmerkur og gerði verjandi Madsen það strax í kjölfar uppkvaðningarinnar. Hann verður áfram í fangelsi. Verjandi vildi að takmörkunum á heimsóknum og bréfaskriftum yrði aflétt en á það féllst dómarinn ekki. Það þýðir að Madsen getur ekki fengið heimsókn frá hverjum sem er og að fangaverðir eða lögreglumenn muni áfram lesa yfir þau bréf sem hann fær send og þau sem hann vill senda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert