Sjúkdómur eða sæmdarmorð

AFP

Réttarmeinafræðingar lögreglunnar í Pakistan rannsaka í dag lík ítalskrar konu en talið er að hún hafi verið myrt af ættingjum sínum í Pakistan. Um sæmdarmorð sé að ræða. Mikið hefur verið fjallað um málið í ítölskum fjölmiðlum að undanförnu.

Rannsókn lögreglunnar í borginni Gujrat hófst fyrr í vikunni eftir að ásakanir um að Sana Cheema hafi verið myrt fóru að flæða um samfélagsmiðla. Cheema, sem var ítölsk en af pakistönskum ættum, lést fyrr í mánuðinum og að sögn ættingja hennar var banamein hennar óþekktur sjúkdómur.

Aðalvarðstjóri í lögreglunni í Gujrat, Waqar Gujjar, segir að eftir að fregnir bárust af láti hennar á samfélagsmiðlum hafi rannsókn lögreglunnar hafist. Faðir hennar, bróðir og frændi eru allir í haldi lögreglu en enginn þeirra hefur verið ákærður. 

Að sögn lögreglustjórans í Gujrat, Mudassar Sajjad, verður ákvörðun um framhaldið tekin í kjölfar réttarmeinarannsóknarinnar. Enginn verði ákærður fyrir en ljóst er að um morð sé að ræða. 

Lögreglan segir að faðir Cheema, Ghulam Mustafa, hafi komið með hana til Pakistan þar sem hún átti að ganga í hjónaband. Þegar fjölskyldan sem hún átti að giftast inn í hafnaði henni hafði það mikil áhrif á Cheema, að sögn ættingja. Hún hafi neitað að borða, veikst og látist í kjölfarið. 

Ítalskir fjölmiðlar segja aftur á móti að Cheema, sem var hálfþrítug þegar hún lést, hafi verið myrt því hún hafi ætlað sér að giftast manni á Ítalíu þvert á vilja fjölskyldu hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert