Sökuð um hnupl og sagði af sér

Cristina Cifuentes, forseti héraðsstjórnar Madrid, hefur sagt af sér embætti.
Cristina Cifuentes, forseti héraðsstjórnar Madrid, hefur sagt af sér embætti. AFP

Cristina Cifuentes, forseti héraðsstjórnar Madrid á Spáni, hefur sagt af sér eftir að hafa verið sökuð um búðarþjófnað. Aðeins nokkrar vikur eru frá því að hún var sökuð um að hafa logið til um meistaragráðu sína.

Cifuentes lýsir því sem persónulegri árás að myndband af henni að afhenta öryggisverði verslunar vörur hafi verið birt í fjölmiðlum. Myndbandið var tekið árið 2011.

Er því haldið fram að hún hafi stolið tveimur túpum af húðkremi sem vinna á gegn öldrun. Verðmæti er sagt vera um 5000 krónur.

Í síðustu viku kom fram að tvær undirskriftir á prófskírteini hennar höfðu verið falsaðar og þrýstu pólitískir andstæðingar hennar á hana í kjölfarið að segja af sér. 

Cifuentes sagði í dag að hún hefði verið búin að ákveða að segja af sér í næstu viku. Hún hafi hins vegar ákveðið að láta verða af því í dag vegna hinna nýju ásakana um búðarþjófnað.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert