Gáfu fé til hryðjuverkasamtaka

Talið er að Ríki íslams hafi fengið um einn milljarð …
Talið er að Ríki íslams hafi fengið um einn milljarð dollara í tekjur á árabilinu 2014-16. AFP

Yfirvöld í Frakklandi hafa borið kennsl á 416 manns sem gáfu fé til hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams að því er AFP-fréttastofan hefur eftir saksóknara í hryðjuverkamálssóknum. Funduðu tugir ráðherra um málið í dag og hvernig stöðva mætti fjárframlög til öfgasamtaka.

Sagði saksóknarinn Francois Molins að franska öryggislögreglan hefði borið kennsl á 416 franska ríkisborgara sem hefðu sent samtökunum fé, þá hefðu einnig fundist 320 fjáröflunaraðilar sem sæju um að senda fé til samtakanna, en flestir þeirra voru staðsettir í Tyrklandi og Líbýu.

OECD stendur nú fyrir tveggja daga ráðstefnu um það hvernig megi hindra fjáröflun hryðjuverkahópa og taka um 80 ráðherrar og 500 sérfræðingar þátt í fundinum.

Mun Emmanuel Macron Frakklandsforseti halda lokaræðu ráðstefnunnar síðar í dag.

Verulega hefur dregið úr kostnaði hryðjuverkasamtaka við árásir sínar í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana í New York 2011. Hafa árásarmenn þannig í síauknum ræði nýtt sér flutningabíla til verksins eða sjálfvirka riffla.

Í yfirlýsingu frá frönsku forsetaskrifstofunni við upphaf fundarins kom fram að talið sé að Ríki íslams hafi fengið um einn milljarð dollara í tekjur á árabilinu 2014-16. Eru tekjurnar sagðar byggja að mestu á skattlagningu á íbúa á yfirráðasvæðum þeirra, tekjur af olíusölu, ránum og svo fjárgjöfum frá einstaklingum erlendis.

Hafa frönsk yfirvöld áhyggjur af því að féð hafi þegar verið flutt frá Sýrlandi og Írak, með minnkandi ítökum samtakanna þar, og að hægt verði að nota það til að byggja upp samtökin annars staðar.

„Það er búið að flytja það, að minnsta kosti að hluta til og er líklega einhvers staðar,“ sagði einn embættismannanna við AFP gegn loforði um nafnleynd. „Þessir hópar eru mjög færir í að nota þróaðar aðgerðir til að flytja fé á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert