Vissi um samkomulagið

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, viðurkenndi í gærkvöldi að hann hefði vitað af samkomulaginu sem persónulegur lögmaður hans, Michael Cohen, gerði við klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels. Hingað til hefur Trump neitað því að hafa vitað að Cohen hafi greitt Daniels 130 þúsund Bandaríkjadali til þess að koma í veg fyrir að hún tjáði sig um meint samband hennar við forsetann árið 2006.

Þetta kom fram í símaviðtali við Trump á sjónvarpsstöðinni Fox í gærkvöldi í þættinum „Fox and Friends“. Trump hefur aldrei fyrr viðurkennt að Cohen hafi verið hans fulltrúi í samningaviðræðunum við Daniels sem hefur höfðað mál til þess að fá samkomulaginu um þögn hnekkt. Að sögn Trump annast Cohen aðeins einstaka mál fyrir hann. Þar á meðal hafi hann séð um að gera þennan „klikkaða“ samning við Stormy Daniels.

„Og eins og þetta horfir við mér gerði hann nákvæmlega ekkert rangt,“ sagði Trump í þættinum í gær. „Það voru engir kosningasjóðir nýttir í þetta.“

Þegar Trump var spurður út í fyrri ummæli sín um að hann hefði ekki vitað af samkomulaginu við Daniels svaraði hann því til að það væri Cohens að svara því. „Þú verður að spyrja Michael Cohen. Michael er lögmaður minn. Þú verður að spyrja Michael,“ sagði Trump.

Daniels hef­ur greint frá því að þau hafi sofið sam­an einu sinni en að Trump hafi margít­rekað reynt að end­ur­nýja kynn­in. Hún seg­ist hafa skrifað und­ir samn­ing ell­efu dög­um fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar árið 2016 um að segja ekki frá sam­bandi sínu við Trump og fyr­ir vikið hafi hún fengið áður­nefnda 130 þúsund doll­ara. Michel Cohen, lögmaður Trump til margra ára, hef­ur viður­kennt að hafa af­hent leik­kon­unni þessa pen­inga, en ekki sagt hvers vegna.

Donald og Mel­ania Trump gengu í hjónaband árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert