93 ára fór holu í höggi

Hola í höggi þykir mikið afrek á golfvellinum.
Hola í höggi þykir mikið afrek á golfvellinum. mbl.is/Brynjar Gauti

93 ára gamall karlmaður frá Ohio lauk tæplega sjö áratuga golfferli sínum með því að fara holu í höggi í fyrsta skipti. 

Ben Bender segir að drottinn hafi vitað að þetta yrði hans síðasti golfhringur og því gefið honum holu í höggi.

Afrekið vann Bender á þriðju braut á Green Valley-golfvellinum í Zanesville og sló hann kúluna með fimm járni beint ofan í holuna. Lengd brautarinnar var um 140 metrar.

Bender segist hafa fylgst með flugi kúlunnar furðulostinn en svo hafi mjöðmin farið að trufla hann svo hann varð að hætta leik og snúa aftur til klúbbhússins. Þar með lauk ferli hans á golfvellinum. Bender hóf að spila golf er hann var 28 ára gamall. Hann var með 3 í forgjöf þegar best gekk. 

Hann segist gjarnan vilja spila áfram en að nú sé mál að linni. 

AP-fréttastofan greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert